Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir verður önnur yngsta konan til að taka sæti á Alþingi og fimmta yngst allra þingmanna þegar nýtt þing kemur saman á morgun. Hún skipaði annað sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Lilja tók fyrst sæti á Alþingi árið 2018 en þá varð hún yngst kvenna til að taka sæti á Alþingi sem varamaður og fjórða yngst allra. Hún segist hafa haft áhuga á stjórnmálum frá unga aldri og stefnan alltaf verið að taka sæti á Alþingi.
200 kílómetrar á dag
Lilja er 25 ára tveggja barna móðir úr Borgarbyggð sem stundar grunnskólakennaranám með áherslu á samfélagsfræði við Háskóla Íslands. Meðfram námi hefur hún starfað á leikskólanum í Búðardal, Hjallastefnunni á Bifröst og sem skólaliði í Grunnskóla Borgarfjarðar. Nú verður námið lagt til hliðar í einhvern tíma þar sem þingmennskan tekur við á morgun.
Ólíkt mörgum öðrum landsbyggðarþingmönnum ætlar Lilja ekki að flytja á höfuðborgarsvæðið. Hún stefnir á að keyra að minnsta kosti 200 kílómetra á dag en segir það ekkert mál enda kunni hún að nýta tímann vel.
„Ég nýti tímann og hringi. Ef ég er ekki að hringja hlusta ég bara á tónlist og öskursyng með. Önnur leiðin er sirka einn söngleikur.“
Spurð um uppáhaldssöngleik sinn nefnir hún bandaríska verkið Hamilton. „Pólitík og söngleikur saman, hversu fullkomið er hægt að hafa þetta?“
Ættu ekki allir að þurfa að búa á Stúdentagörðunum
Frá unga aldri hefur Lilja haft áhuga á stjórnmálum en hún segir þau einmitt hafa verið stærsta áhugamál sitt síðan í grunnskóla. Hún byrjaði aðeins 17 ára í starfi Framsóknar og gegndi meðal annars formennsku í Sambandi ungra framsóknarmanna í þrjú ár.
Stærstu áherslumál Lilju á Alþingi verða menntamál og byggðamál. Hún segist lengi hafa talað fyrir aukinni áherslu á fjarnám í HÍ þar sem ekki sé nauðsynlegt að mæta á staðinn í mörgum bóklegum áföngum og mun hún halda áfram að tala fyrir því á Alþingi.
„Á Alþingi mun ég leggja áherslu á að allir geti stundað nám, sama hvar þeir búa. Það er í raun aðalástæðan fyrir því að ég fór í pólitík. Mér fannst frekar fúlt að það þyrfti heimsfaraldur til að bjóða fjarnám sem valkost. Þegar fullorðið fólk er í námi á það að gera það á sínum forsendum. Háskólinn á ekki að ákveða forsendur þess. Það eiga ekki allir að þurfa að búa á Stúdentagörðunum.“
Aldur ekki hæfniviðmið
Framsókn á nú þrjá unga þingmenn og eru þeir allir nýir á þingi. Lilja kveðst finna fyrir því að flokkurinn sé að laða að sér ungt fólk í auknum mæli og telur hún ástæðuna stefnu flokksins í mennta- og félagsmálum.
Lilja segir það geta hjálpað sér að vera ung á þingi þar sem hún er enn í háskólanámi og á börn í leikskóla, en hún vill ekki að fólk horfi bara á hana sem unga þingmanninn.
„Ég heyri allt aðra umræðu og tek þátt á samfélagsmiðlum á allt annan hátt en margir aðrir á þingi. Fólk lítur þó á aldur sem hæfniviðmið, sem það er alls ekki. Mér finnst frábært að vera komin í þessa stöðu en ég vil ekki bara vera unga þingkonan.“