Þrír piltar voru fermdir við messu í Skálholtskirkju í gær, en fátítt er ef ekki einsdæmi að slíkar athafnir fari fram síðla hausts – það er helgina áður en aðventan gengur í garð. Piltarnir áttu upphaflega að fermast síðastliðið vor, en ýmissa aðstæðna vegna, svo sem sóttvarna, var því frestað. Nú komið fram í nóvember var lag og séra sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna, sem annaðist athöfnina, vakti þar athygli á dagsetningunni, 21-11-21.
„Maður er vanastur fermingum um hvítasunnuna, en þetta er skemmtilegt frávik frá því. Fín tilbreyting,“ sagði sr. Óskar um athöfn dagsins. Fermingarpiltarnir þrír eru allir úr Laugardalnum.
Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, þekkir ekki önnur nýleg dæmi um fermingarathafnir síðla hausts. „Þetta segir okkur að fermingarsiðurinn er afar sterkur á Íslandi. Fólki er í mun að börn fermist, jafnvel þótt slíkt tefjist og finna þurfi óvenjulegan tíma fyrir athöfn,“ segir sr. Kristján.
„Ferming á þessum tíma árs var óvænt niðurstaðan en dagurinn ánægjulegur. Nú fer maður bara að undirbúa jólin, það er næsta mál á dagskrá,“ segir María Carmen Magnúsdóttir, móðir Magnúsar Þórs Daníelssonar fermingardrengs.