Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákæru í máli gegn karlmanni á Egilsstöðum vegna skotárásar sem átti sér stað 26. ágúst í götunni Dalseli í bænum. Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson hjá héraðssaksóknara. Lögregla skaut manninn í aðgerðum sínum, en hann er á batavegi.
Í skotárásinni fór maðurinn vopnaður haglabyssu og riffli á heimili annars manns sem hann leitaði að. Sá maður hafi hins vegar ekki verið heima þegar byssumanninn bar að garði. Heimildir herma þó að börn mannsins hafi verið heima og flúið þar sem þeim stóð ógn af byssumanninum sem hafði skotið á rúðu í húsinu á móti áður en lögreglan kom á staðinn.
Fjöldi íbúa í Dalseli varð var við skotárásina sem stóð yfir í rúman hálftíma að sögn vitna. Minnst einn varð vitni að því þegar byssumaðurinn var skotinn í aðgerðum lögreglu.
Að sögn sjónarvottar skaut lögreglan byssumanninn í kviðinn eftir að hann neitaði að leggja niður vopn sín. Maðurinn var svo fluttur til aðhlynningar í Reykjavík með sjúkraflugi. Var hann á gjörgæslu fyrst um sinn en var svo fluttur á almenna deild.
Saksóknari hefur 12 vikur til að gefa út ákæru ef halda á sakborningum í gæsluvarðhaldi. Rann sá frestur út á föstudaginn. Friðrik Smári staðfestir að maðurinn verði í gæsluvarðhaldi til 30. nóvember.
Manninum hefur enn ekki verið birt ákæran.