Héraðssaksóknari hefur ákært byssumanninn

Hús sem skotið var á í Dalseli á Egilsstöðum.
Hús sem skotið var á í Dalseli á Egilsstöðum. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákæru í máli gegn karlmanni á Egilsstöðum vegna skotárásar sem átti sér stað 26. ágúst í götunni Dalseli í bænum. Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson hjá héraðssaksóknara. Lögregla skaut manninn í aðgerðum sínum, en hann er á batavegi.

Í skotárásinni fór maðurinn vopnaður haglabyssu og riffli á heimili annars manns sem hann leitaði að. Sá maður hafi hins veg­ar ekki verið heima þegar bys­su­m­ann­inn bar að garði. Heim­ild­ir herma þó að börn manns­ins hafi verið heima og flúið þar sem þeim stóð ógn af bys­su­m­ann­in­um sem hafði skotið á rúðu í hús­inu á móti áður en lög­regl­an kom á staðinn. 

Fjöldi íbúa í Dal­seli varð var við skotárás­ina sem stóð yfir í rúm­an hálf­tíma að sögn vitna. Minnst einn varð vitni að því þegar bys­sumaður­inn var skot­inn í aðgerðum lög­reglu.

Að sögn sjón­ar­vottar skaut lög­regl­an bys­su­m­ann­inn í kviðinn eft­ir að hann neitaði að leggja niður vopn sín. Maður­inn var svo flutt­ur til aðhlynn­ing­ar í Reykja­vík með sjúkra­flugi. Var hann á gjörgæslu fyrst um sinn en var svo fluttur á almenna deild.

Saksóknari hefur 12 vikur til að gefa út ákæru ef halda á sakborningum í gæsluvarðhaldi. Rann sá frestur út á föstudaginn. Friðrik Smári staðfestir að maðurinn verði í gæsluvarðhaldi til 30. nóvember.

Manninum hefur enn ekki verið birt ákæran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert