Undraolía sem gjörbreytti lífi dótturinnar

Sigurður Hólmar Jóhannesson segir CBD hampolíu hafa gjörbreytt lífi dóttur hans, Sunnu Valdísar, en hún er greind með afar sjaldgæfan taugasjúkdóm, AHC (Alternating Hemiplegia of Childhood), sem lýsir sér meðal annars í gríðarlegum taugaverkjum, krömpum, skapofsaköstum og flogum sem í tilviki Sunnu enduðu oft með spítalavist.

Í Dagmálum, frétta- og menn­ing­ar­lífsþætti Morg­un­blaðsins, lýsti Sigurður, sem er í dag meðal annars formaður Hampfélagsins, því hvernig líf Sunnu Valdísi gjörbreyttist eftir að hún byrjaði að taka inn „undraolíuna“ þegar hún var 11 ára gömul.

Hefur ekki fengið flog síðan

„Við byrjuðum bara strax að sjá áhrif. Það byrjaði á því að þessum ofsabrjálæðisköstum fór að fækka. Hún varð miklu rólegri. Við byrjuðum á rosalega lágum skammti og hækkuðum okkur hægt og rólega upp. Það má segja að á þriðju viku þá sjáum við að hún er eiginlega hætt þessum köstum. Hún er orðin róleg. Hún er farin að leika sér sjálf. Hún er semsagt einhverf líka og þurfti svolítið að hafa okkur alltaf við hliðina á sér,“ segir Sigurður og bætir við að í kjölfarið hafi hún einnig byrjað að tjá sig mun meira en hún gerði og að orðaforðinn hafi aukist verulega.

„ Það opnaðist allt í einu einhver flóðgátt og hún allt í einu fór að segja ný orð á hverjum degi. Í dag er hún fulltalandi,“ sagði Sigurður en Sunna Valdís, sem er 15 ára í dag, hefur ekki fengið flog síðan hún byrjaði á olíunni.

Sigurður ræddi um ótrúleg áhrif CBD hampolíunnar sem er unnin úr kannabisplöntunni iðnaðarhampi og inniheldur ekki nema í snefilmagni vímugefandi efninu THC sem finnst í meira mæli í frændplöntu iðnaðarhampsins sem er meðal annars þekkt sem maríjúana en hann vinnur nú fyrir því að auka aðgengi allra að CBD og minnka fordóma fyrir efninu sem hann segir vera allra meina bót.

Sjáðu þátt­inn í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert