„Þetta er bara engan veginn ásættanlegt,“ segir Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda, inntur viðbragða við myndbandi frá dýraverndarsamtökunum AWF/TSB, eða Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich, sem sýnir óviðunandi verklag við blóðtöku úr fylfullum hryssum.
„Það er svosem ekki þannig að teljum að svona aðfarir séu heilt yfir stundaðar í þessu starfinu. Þetta eru vonandi undantekningar,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is.
Spurður segir hann einungis dýralækna mega taka blóð úr hryssum og að þeim sé skylt að gera athugasemdir ef þeim þykir meðferð á hryssunum við blóðtöku ekki viðunandi.
„Þetta snýst náttúrulega bara um dýravelferð og aðfarir í ákveðnu starfi sem er mjög viðkvæmt starf.“
Þá segir hann eftirlit með starfsemi af þessu tagi þurfa vera mikið og gott enda hafi umfang starfseminnar og búgreinarinnar í heild sinni stækkað mikið undanfarin ár.
„Þá þarf eftirlit og eftirfylgni að fylgja því eftir.“
Inntur eftir því segir hann ekki gott að alhæfa um það hvort umrætt myndband sé áfellisdómur á starfsemina í heild sinni. Hann voni þó að þarna sé um einangruð tilfelli að ræða.
„Við tökum kannski inn í umræðuna jafnan lægsta samnefnarann og það sem upp kemur og ræðum það en það er einfaldlega þannig að samkvæmt dýraverndarlögum þá ber fólki að ganga vel um skepnur.“
Búgreinin í heild sinni sé þó í miklum blóma og uppákoma af þessu tagi hafi vafalaust slæm áhrif á orðspor hennar.
„Hrossaræktarstarfið og sala á hestum bæði innanlands og erlendis er í sögulegu hámarki núna. Það er sögulega gott ár að líða hvað varðar útflutning þannig okkur finnst okkur ganga vel í greininni,“ segir Sveinn.
„Við viljum auðvitað ekki að þetta sé mynd sem er dregin upp þegar fólk hugsar um íslenska hestinn. Ég bara ætla þeim sem að þessu standa, þ.e. MAST, Ísteka og þeim bændum sem eru í þessari starfsemi, að fara rækilega yfir alla sína þætti.“
Félag hrossabænda sendi frá sér í yfirlýsingu í dag þar sem forsvarsmenn félagsins segjast harma og fordæma vinnubrögðin sem viðhöfð voru og sjást á myndbandinu umrædda.
Þar segir einnig að forsvarsmenn félagsins hafi ávallt bent á að velferð hryssna og folalda í blóðhryssnabúskap þurfi að vera í fyrirrúmi og því hafi verið áfall að verða vitni að þeirri meðferð sem sést í myndbandinu. Hvorki aðbúnaður, umgjörð og hvað þá heldur sú illa meðferð sem hryssurnar eru beittar séu ekki á nokkurn hátt réttlætanlegar.
„Það er skýlaus krafa Félags hrossabænda að rannsakað verði það sem fram kemur í myndbandinu og upplýst af hálfu MAST hvernig eftirliti með þessari starfsemi sé og hafi verið háttað og hver beri ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er,“ segir í yfirlýsingunni.