Eggert Skúlason
Baldur Freyr Einarsson hefur sent frá sér bókina Úr heljargreipum. Þetta er ævisaga manns sem upplifði allar tegundir ofbeldis sem barn. Saga ungs manns sem fór á kaf í fíkniefni og glæpi og varð stórtækur fíkniefnasali og innflytjandi. Saga fullorðins manns sem „bjó í helvíti“ en rataði loks til baka.
Saga Baldurs Freys sem hefur verið edrú í fjórtán ár og vinnur nú við að endurreisa fólk, eins og hann kallar það sjálfur.
Sagan hefst á litlum strák sem í raun átti aldrei möguleika á venjulegu lífi. „Ég fékk fyrsta taugaáfallið fimm ára,“ segir Baldur í Dagmálsþætti dagsins. Hann rekur sögu sína sem er í senn átakanleg og ógeðfelld en um leið staðfesting á því að það er alltaf von. Sama á hverju dynur.
Baldur Freyr er viðmælandi Eggerts Skúlasonar í Dagmálum í dag. Þættirnir eru aðgengilegir áskrifendum Morgunblaðsins en einnig er hægt að kaupa vikupassa.