Samtökin Frelsi og ábyrgð fylgjast með fyrirtækjum og stofnunum sem mismuna óbólusettum. Lögmaður samtakanna, fyrrverandi héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson, segir að þau kynnu að láta reyna á það fyrir dómstólum mismuni stjórnvöld óbólusettum með lagasetningu.
Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.
Þar er haft eftir Arnari að hann myndi ekki draga úr því að fara í mál til að kanna hvort lög eða reglur sem mismuni stæðust stjórnarskrá. Arnar bendir á að hann taki ekki ákvörðun fyrir hönd félagsins, enda sé hann ekki félagsmaður.
Fyrir samtökunum fer Marta Ernstdóttir, fyrrverandi frjálsíþróttakona. Þau hafa verið nokkuð áberandi í umræðu um bólusetningar og hafa spurt út í öryggi bóluefna.
Arnar segir að vinna þurfi út frá þeirri meginreglu að allir séu jafnir fyrir lögum. Hafa þurfi það í huga áður en stjórnvöld leggi til að minnka réttindi eins hóps umfram aðra.