Forritarinn sem gerði nokkrum golfurum landsins kleift að svindla við bókun á rástíma á golfvöllum landsins kallar eftir því að Golfsamband Ísland, GSÍ, komi sér upp betra og sanngjarnara skráningarkerfi.
„Það þarf betra skráningarkerfi, eitthvað sem er sanngjarna. Eina ástæðan fyrir því að ég kom fram var af því að það voru rangfærslur um hvernig þetta forrit hagaði sér og ég vildi taka af allan vafa um að það væri ekki verið að brjótast inn á tölvuþjóna eða neitt slíkt í gangi.
En einnig voru aðilar sem voru hafðir fyrir rangri sök sem ég er nokkuð viss um að höfðu ekki neina hugmynd um hvernig þeir voru skráðir,“ segir Guðni Þór Björnsson í samtali við mbl.is.
Guðni deildi færslu á lokuðum Facebook-hópi þar sem hann greindi frá formúlunni og tók fulla ábyrgð á málinu. Spurður hvernig viðbrögðin hafa verið segir hann þau flest jákvæð.
„Viðbrögðin eru flest jákvæð en þetta stingur einhverja, en það er eins og það er. Ég veit að það er hægt að líta á þetta frá mörgum sjónarhornum og get alveg skilið að þetta ergi suma.“
Í færslunni segir Guðni að upp hafi komist um málið í sumar og varpar þeirri spurningu fram hvort nú sé verið að stunda hræðsluáróður fyrir komandi sumar með því að taka málið upp aftur. GSÍ hefur ekki haft samband við Guðna og beðið hann að hætta notkun forritsins.
„Sé það vilji golfsamfélagsins þá er ég tilbúinn að hætta notkun scriptunnar, eins og ég hef þegar gert frá og með júlí/ágúst. En betra þykir mér að allir geti haft aðgang að þessum litla forritsbút og gert sitt - þar gæti skapast skemmtileg keppni klukkan tíu öll kvöld frá maí til október.“
Þá sakar Guðni golfklúbba landsins um að brjóta eigin reglur.
„Fólk hefur verið að skrá sig á rástíma og sleppa því að afskrá sig þegar það kemst ekki, sem gerir það að verkum að færri komast að en vilja. Þá hafa klúbbarnir verið að taka frá holl fyrir þá sem ekki eru í klúbbnum. Þeir sem eru meðlimir í klúbbum eiga að fá forgang, það er í reglum margra klúbba.“
Ekki náðist í Huldu Bjarnadóttur, formann GSÍ, við vinnslu fréttarinnar.