Heim með handritin

Reynir Sverrisson stendur vaktina um helgina og missir þá gjarnan …
Reynir Sverrisson stendur vaktina um helgina og missir þá gjarnan af veislum.

Frímerkja- og póstkortasafnarinn Reynir Sverrisson hefur staðið vaktina í Kolaportinu síðan 1. október 1994. Hann var á frímerkjasýningu og uppboði í Kaupmannahöfn í liðinni viku, þar sem hann seldi frímerki, kort og bréf sem tengjast Danmörku, og keypti stór íslensk söfn með merkjum frá 1873 til 1944. „Það er margt skemmtilegt í þessu góssi og ég segi gjarnan að ég komi heim með handritin,“ segir hann.

„Ég er annars forfallinn safnari,“ heldur Reynir áfram. „Ég hef safnað frímerkjum frá barnsaldri en er nú fyrst og fremst á eftir tengdum hlutum eins og gömlum íslenskum póstkortum og gömlum umslögum frá því fyrir lýðveldisstofnun.“

Þegar Reynir var sex ára fékk hann hettusótt og lá veikur heima. „Þá færði amma mér gamlan skókassa fullan af frímerkjum og póstkortum, sagði mér að leysa upp merkin og kenndi mér réttu handbrögðin. Áráttan er því henni að kenna – eða þakka.“ Fjölskyldan hafi reglulega gaukað að honum merkjum og kortum og faðir hans hafi verið í siglingum og keypt pakka erlendis. „Þetta var mjög spennandi og ég lærði strax mikið af þessu.“

Frímerkjasafnið var orðið viðamikið um fermingu. „Þá beindist áhuginn fyrst og fremst að íslenskum frímerkjum og kortum,“ segir safnarinn. Auðvelt hafi verið að eignast flest útgefin frímerki hérlendis og þá hafi næsta skref verið að eignast frímerki á umslögum og finna merki með gömlu póststimplunum, sem hafi verið mismunandi um allt land. „Póstsagan er svo heillandi, því það er svo margt í henni, grúskið í henni er innlit í þjóðfræðina.“

Heillandi heimur

Frá því Reynir fór út í verslunarrekstur hefur hann fyrst og fremst hugsað um að útvega merki og kort fyrir aðra en látið gott heita með eigið safn. „Ég kaupi dánarbú og stórar einingar, flokka varninginn og útvega söfnurum það sem þá vantar.“ Hann leggur áherslu á að þótt hann vanti ýmislegt í einkasafnið bæti hann ekki lengur í það. „Ég fæ alveg nóg út úr því að útvega mönnum það sem þá vantar, láta þá njóta þess, og freistast ekki til að láta hluti í bók hjá mér.“

Eldri viðskiptavinum hefur fækkað í Kolaportinu og segir Reynir helstu ástæðuna vera skort á bílastæðum. „Við líðum fyrir það að bílastæðum hefur fækkað og gamla fólkið treystir sér þess vegna ekki til að koma í sama mæli og áður auk þess sem því er ekki vel við bílahúsin.“ Ferðamönnum hafi hins vegar fjölgað eftir 2010. „Allir þurftu að eiga mynd af Eyjafjallajökli eftir gosið og stöðug sala er í merkjum og kortum af Gullfossi og Geysi.“ Þar sem tiltölulega auðvelt sé að eignast flest íslensk frímerki snúi safnarar sér gjarnan að annarri búgrein af sama meiði. Margar handbækur séu til um þessar hliðargreinar og þær auki áhugann.

Frítími Reynis fer að mestu í áhugamálið. „Ég er oft skammaður fyrir að missa af afmælum um helgar en mæti alltaf í mat á réttum tíma. Það gengi ekki upp ef ég væri í hestamennsku eða golfi og ég uni mér í þessum heillandi heimi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert