Kjörbréfanefnd skipuð og tillögur kynntar á eftir

Kjörbréfanefnd fundar eftir setningu Alþingis.
Kjörbréfanefnd fundar eftir setningu Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Níu þingmenn hafa verið kjörnir í kjörbréfanefnd sem tekur við keflingu af undirbúningskjörbréfanefnd Alþingis. Nefndinni er ætlað að kynna tillögur um ráðstafanir vegna meðferðar kjörgagna í Norðvesturkjördæmi í kjölfar þingkosninganna í september. 

Nefndarmennirnir eru þeir sömu og voru í undirbúningskjörnefndinni:

  • Birgir Ármannsson
  • Björn Leví Gunnarsson
  • Diljá Mist Einarsdóttir
  • Inga Sæland
  • Jóhann Friðrik Friðriksson
  • Líneik Anna Sævarsdóttir
  • Svandís Svavarsdóttir
  • Vilhjálmur Árnason
  • Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir og Diljá Mist Einarsdóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir og Diljá Mist Einarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillögur kynntar á eftir en kosið á fimmtudag

Búast má við því að nefndin afgreiði a.m.k. tvær tillögur, sem þingið kýs svo um á fimmtudag. Ekki er ólíklegt að ein tillagan geri ráð fyrir að ráðist verði í uppkosningu í Norðvesturkjördæmi vegna meðferðar kjörgagna og að önnur tillaga geri ráð fyrir að stuðst verði við niðurstöður endurtalningar.

Það sem þó hefur ekki verið staðfest, en er engu að síður hugsanlegt, er að um fleiri tillögur verði að ræða. 

Þannig er hægt að ímynda sér að enn önnur tillagan geri ráð fyrir að stuðst verði við fyrri talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi eða að uppkosning verði framkvæmd á landsvísu, þótt það verði að teljast hæpið. 

Kjörbréfanefnd kemur saman til fundar nú klukkan 15:00 á nefndarsviði Alþingis og verða niðurstöður nefndarinnar – þær sem þingið kýs um á fimmtudag – kynntar í kjölfarið.

Fróðlegt verður að sjá hvernig þingmenn og þingflokkar kjósa með tillögum nefndarinnar. Nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson, segir líklegt að hann muni sitja hjá svo dæmi sé tekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert