Fjórar ljósmæður skráðu sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu um helgina. Þetta gerðist í kjölfar þess að Landspítalinn vakti sérstaklega athygli á því fyrir helgi að þar bráðvantaði ljósmæður vegna þess að fjöldi starfsmanna væri kominn í sóttkví. Eru nú fimm ljósmæður í bakvarðasveitinni.
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu eru nú 250 manns skráðir í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Í hópi faglærðra eru sjúkraliðar fjölmennastir, 67 talsins. Nú eru 46 hjúkrunarfræðingar til taks og 18 læknar, átta lyfjafræðingar og sjö lífeindafræðingar.
Færri eru úr öðrum starfsstéttum. Nokkur fjöldi nema hefur sömuleiðis skráð sig í bakvarðasveitina, níu læknanemar, níu nemar í hjúkrunarfræði og 36 sjúkraliðanemar.