Rjúpan er í góðum holdum

Holdafar rjúpu hefur verið mælt frá árinu 2006. Hér sést …
Holdafar rjúpu hefur verið mælt frá árinu 2006. Hér sést Ljósavíkur Coco sækja rjúpu Ljósmynd/Ingólfur Guðmundsson

Holdafar rjúpna, bæði fullorðinna fugla og ungra fugla, var í haust með því besta sem mælst hefur frá upphafi mælinga 2006 og mun betra en í fyrra. Holdafar fullorðinna fugla var með besta móti og eitt það besta hjá ungum fuglum. Þetta sýna mælingar á fuglum sem veiddir voru á Norðausturlandi í fyrri hluta nóvember. Ferlarnir fyrir holdastuðul stefna nú upp á við. Náttúrufræðistofnun Íslands greindi frá þessu í gær.

„Fylgst hefur verið með holdafari rjúpna síðan 2006. Eitt af því sem komið hefur í ljós er að mikill munur er á holdafari rjúpna eftir árum; ungfuglar eru að jafnaði í lakari holdum en fullorðnir fuglar en breytingar á milli ára eru þær sömu hjá báðum aldurshópum. Þessi mælikvarði á „hreysti“ rjúpunnar endurspeglar eitthvað sem fuglarnir hafa reynt í lífi sínu mánuðina á undan, það er yfir sumar og haust,“ segir í fréttinni.

Fengu fugla hjá veiðimönnum

Náttúrufræðistofnun rannsakaði 207 fugla sem voru veiddir dagana 1.-14. nóvember. Fuglarnir voru fengnir að láni hjá veiðimönnum. Tölfræðigreining var gerð á öllu gagnasafninu frá 2006 til 2021. Niðurstöðurnar sýna marktækan mun á holdastuðli á milli ára og á milli aldurshópa.

Í ljós kom að almennu reglurnar um að ungar væru í lakari holdum en fullorðnir fuglar og að ekki væri munur á holdafari eftir kynjum voru ekki algildar. „Sum ár var ekki munur á holdafari eftir aldri og eins var sum ár munur á holdafari eftir kyni. Einnig var samvirkni á milli kyns og aldurs marktæk og þá þannig að aldurshrif voru meiri fyrir kvenfugla en karlfugla.“

Þá kom í ljós að breytingar á holdastuðli eftir aldri fugla á árunum 2006 til 2021 héldust mjög vel í hendur á milli ára. Helsta frávikið var 2018 þegar fullorðnir fuglar skoruðu mjög lágt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert