Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður segir konurnar í aðgerðarhópnum Öfgum gera sér upp rangar meiningar þegar hans eini ásetningur með skrifum sínum hafi verið að draga úr kynferðisbrotum og benda á að minni eða engin neysla vímuefna væru fyrirbyggjandi aðferð.
Þetta kemur fram í pistli á Vísi í dag þar sem hann furðar sig á opnu bréfi sem birtist á Vísi daginn áður. Þar gerðu sex konur sem eru í aðgerðarhópnum Öfgum pistil Jóns, sem birtist í Morgunblaðinu 18. nóvember síðastliðinn, að umfjöllunarefni sínu.
Jón vill þá meina að sexmenningarnir úr Öfgum hafi gert honum rangt til og ætlað honum meiningar sem hann ekki kannast við en Jón Steinar segist fyrst og fremst hafa ritað sinn pistil með það í huga að benda þolendum og gerendum á að minni, eða helst engin, neysla áfengis og annarra vímugjafa væru fyrirbyggjandi ráðstöfun til að fækka kynferðisbrotum í samfélaginu.
Hann segir til að mynda: „Ég kann ekki að vísa til vísindalegra kannana máli mínu til stuðnings, en ég er samt sannfærður um að þorri kynferðisbrota er framinn af drukknum ofbeldismönnum á drukknum fórnarlömbum þeirra. Stundum er ástæða til að ætla að sá sem ofbeldinu beitir, myndi ekki gera það ef hann væri ekki undir áhrifum vímugjafa.“
Jón segir það grófan útúrsnúning að telja hann vilja gera „fórnarlömbin ábyrg fyrir brotunum“. Fyrir honum hafi einungis vakið að reyna að fækka brotunum og segir hann enn fremur að „erfitt sé að finna leiðir sem virka í þá átt.“
„Ég er sammála öfgakonum um að hvorki karlar né konur eigi að fremja ofbeldisbrot á öðru fólki. Best væri ef unnt yrði að uppræta þau með öllu en því miður er ekki sjáanlegt að slíkt sé hægt. Grein mín var skrifuð í þeim tilgangi að reyna að fækka slíkum brotum. Ábyrgð á ofbeldinu hvílir á brotamanni en ekki öðrum. Með vinsemd beini ég því til ykkar að ætla mér ekki skoðanir í aðra átt.“
Að lokum segir hann að hann muni halda áfram að benda stúlkum á að stundum sé hægt að beita aðferðum sem dragi úr líkum á því að brotið verði á þeim, „m.a. með því að skerða ekki dómgreind sína með neyslu vímugjafa.“
En verði þær þó fyrir því að brotið sé á þeim munu hann gera það sem í sínu valdi stendur til þess að hjálpa þeim að fást við endurköstin., „m.a. með því að brýna fyrir þeim að ábyrgðin og skömmin sé ekki þeirra heldur eingöngu brotamannsins.“