Undirbúningsnefnd hefur lokið störfum

Birgir Ármannsson, formaður undirbúningskjörbréfanefndar.
Birgir Ármannsson, formaður undirbúningskjörbréfanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi verður sett, samkvæmt forsetabréfi, í 152. sinn í dag að guðsþjónustu í Dómkirkjunni lokinni.

Fimmtíu og tveir dagar eru liðnir frá alþingiskosningunum og hefði Alþingi ekki mátt koma saman miklu seinna, lögum samkvæmt, eða í síðasta lagi átta vikum eftir kosningar. Dagsins í dag hefur verið beðið með eftirvæntingu, ekki síst vegna þess að greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa, um lögmæti kjörbréfa þingmanna, verður dreift á vef Alþingis um miðjan dag í dag og mun því niðurstaða nefndarinnar liggja fyrir.

Þá er stundin langþráð fyrir þá mörgu nýkjörnu þingmenn sem munu formlega hefja störf sem slíkir.

Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið að líklegt sé að sama fólkið og situr í undirbúningsnefndinni verði skipað í hina eiginlegu kjörbréfanefnd, sem tekur við greinargerð undirbúningsnefndarinnar. Það sé þó undir hverjum þingflokki komið að tilnefna fulltrúa í nefndina. Hann segist þó ekki vita til þess að neinn í undirbúningsnefndinni hafi beðist undan því að sitja í kjörbréfanefnd.

Þrískiptur þingsetningarfundur

Þrítugasta og fjórða og jafnframt síðasta fundi undirbúningsnefndarinnar lauk á níunda tímanum í gærkvöldi. Birgir segir engan sérstakan létti fylgja því enda vinna kjörbréfanefndar fram undan og verkefnið því viðvarandi.

Kjörbréfanefnd mun koma saman eftir að hún verður kjörin á þingsetningarfundi á morgun. Verður þingsetningarfundi frestað eftir kjör kjörbréfanefndar. Honum verður þá fram haldið á fimmtudaginn, þar sem umræður um tillögur kjörbréfanefndar og atkvæðagreiðsla um þær munu fara fram.

Enn verður þingsetningarfundi frestað og fram haldið í næstu viku þegar dregið verður í sæti þingmanna, skipað í nefndir og önnur hlutverk og nýir þingmenn undirrita drengskaparheitin.

Tillögurnar sem um ræðir

Í það minnsta ein tillaga sem kjörbréfanefnd mun fjalla um er staðfesting á öllum útgefnum kjörbréfum þingmanna.

Þá mun önnur tillaga vera á þann veg að 47 kjörbréf verði staðfest og kosning í Norðvesturkjördæmi verði ógilt.

Mögulegt er að fram komi fleiri tillögur svo sem að gefin verði út kjörbréf til þeirra þingmanna sem niðurstaða „fyrri talningar“ hefði gert að þingmönnum og „uppbótarmannakapallinn“ gangi þannig til baka.

Umræður um tillögurnar og endanleg atkvæðagreiðsla fer fram þegar þingsetningarfundi Alþingis verður fram haldið á fimmtudaginn.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert