Afkoma ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum ársins er neikvæð um 138 milljarða króna, sem er þó 51 milljarði króna betri afkoma en áætlanir í upphafi árs gerðu ráð fyrir.
Bætt afkoma skýrist af sterkari tekjuvexti en gert var ráð fyrir. Sú þróun hafði þegar komið fram á fyrri helmingi ársins og er afkoman því í samræmi við væntingar, að því er kemur fram í tilkynningu um uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2021.
Tekjur nema 621 milljörðum króna en áætlanir gerðu ráð fyrir 565 milljörðum króna og er það meginskýring á fráviki frá áætlaðri afkomu tímabilsins. Tekjur hækka um 16% frá sama tímabili fyrra árs.
Innheimta skatta og tryggingagjalda á fyrstu níu mánuðum ársins eykst um 14% frá sama tímabili í fyrra. Hluti aukningarinnar er þó tilkominn vegna áhrifa Covid-19-tengdra frestana á innheimtu ríkissjóðs. Ef leiðrétt er fyrir áhrifum þeirra er vöxturinn 6% frá fyrra ári, að því er segir í tilkynningunni.
Gjöld fyrir fjármagnsliði nema 733 ma. kr. sem er lítillega lægra en áætlað var, en gjöld aukast um 10% milli ára. Mesta aukningin á milli ára er í málaflokkunum sérhæfð sjúkrahúsþjónusta 6,8 ma. kr. eða 11%, vinnumál og atvinnuleysi 4,6 ma. kr eða 7% og háskólar og rannsóknarstarfsemi 4,3 ma. kr. eða 22%.
Afkoma fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 112 ma.kr. sem er 61 ma.kr. betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir.