Baugur Bjólfs verði aðdráttarafl eystra

Af útsýnisstaðnum er útsýni yfir fjallahringinn og Seyðisfjörð.
Af útsýnisstaðnum er útsýni yfir fjallahringinn og Seyðisfjörð.

Tillaga sem ber heitið Baugur Bjólfs varð hlutskörpust í samkeppni um skipulag og hönnun áfangastaðar við snjóflóðavarnargarðana í Bjólfi á Seyðisfirði. Markmið samkeppninnar var að bæta aðstæður og skapa aðdráttarafl á svæði sem hefur mikil tækifæri til þess að verða einn af fjölsóttustu útsýnisstöðum Austurlands, segir m.a. á heimasíðu Múlaþings sem stóð fyrir keppninni.

Baugur Bjólfs er hringlaga útsýnispallur sem situr á Bæjarbrún. Þaðan er einstakt útsýni yfir Seyðisfjörð, frá mynni fjarðarins, yfir bæinn, fjallahringinn og suðvestur inn í dalinn. Að ofanverðu gnæfa tindar Bjólfs yfir, segir í lýsingu með tillögunni. Leiðin að útsýnispallinum um fjallveg er sögð hluti af upplifuninni að heimsækja svæðið. Í síðari áföngum er lagt til að á leiðinni verði þrír áningarstaðir.

Vinningstillagan var unnin í þverfaglegu samstarfi og eru höfundar þær Ástríður Birna Árnadóttir og Stefanía Helga Pálmarsdóttir frá Arkibygg Arkitektum í samvinnu við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá ESJA ARCHITECTURE og Arnar Björn Björnsson frá EXA NORDIC sem sá um burðarvirkjahönnun.

Múlaþing fékk styrk til keppninnar frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Stefnt er að því að semja um áframhaldandi hönnun í samvinnu við vinningshafa og að sótt verði um styrk úr sjóðnum við framhald verkefnisins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert