Fyrst og fremst til að vernda börnin

Þórólfur segir ávinning af bólusetningum barna vega þyngra en áhættan.
Þórólfur segir ávinning af bólusetningum barna vega þyngra en áhættan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir seg­ir ávinn­ing af bólu­setn­ing­um barna á aldr­in­um 5 til 11 ára vega þyngra en áhætt­una. Börn geta veikst al­var­lega af Delta-af­brigðinu, þótt það sé ekki jafn al­gengt og meðal full­orðinna. Þá hef­ur að minnsta kosti eitt barn greinst með fjöl­kerfa­bólgu­sjúk­dóm eft­ir Covid-19 sjúk­dóm­inn.

Fyrr í far­aldr­in­um talaði Þórólf­ur fyr­ir því að halda grunn- og leik­skól­um opn­um á þeim grund­velli að börn sýkt­ust síður en full­orðnir og urðu auk þess ekki jafn veik af sjúk­dómn­um. Síðan þá hef­ur hljóðið í sótt­varna­lækn­in­um breyst og til skoðunar er að bólu­setja ald­urs­hóp­inn 5-11 ára.

„Með til­komu Delta-af­brigðis­ins þá erum við að sjá miklu meira af sýk­ing­um hjá börn­um. Í þess­ari bylgju er stór hluti smita hjá börn­um og bylgj­an sem við eig­um við núna er að miklu leyti drif­in áfram hjá börn­um sem smit­ast í skól­um og smita þá aðra heima. Við erum að sjá allt annað mynstur af þessu Delta-af­brigði og það er á þeim grunni sem að menn eru að skoða það – og hafa ákveðið – að bólu­setja börn.“

Meiri veik­indi meðal full­orðinna

Þrátt fyr­ir að smit og veik­indi meðal barna hafi orðið meira áber­andi eft­ir til­komu Delta-af­brigðis­ins, seg­ir Þórólf­ur það ekki hafa breytt því að full­orðnir eru enn tölu­vert lík­legri til að veikj­ast al­var­lega og þurfa að leggj­ast inn sam­an­borið við þá sem yngri eru.

„Við höf­um ekki tekið sam­an töl­fræðina en er­lend­ar rann­sókn­ir sýna það og mynstrið hérna heima. Börn veikj­ast minna held­ur en full­orðnir og það hef­ur verið þannig all­an tím­an.“

Þúsund­ir lagst inn á spít­ala í Banda­ríkj­un­um

Hann seg­ir bólu­setn­ingu ald­urs­hóps­ins fyrst og fremst til þess fallna að vernda börn­in gegn veik­ind­um en auk þess mun þetta aðstoða við að hefta út­breiðslu smita í sam­fé­lag­inu.

Hann bend­ir á að þúsund­ir barna hafi þurft að leggj­ast inn á spít­ala í Banda­ríkj­un­um og að rann­sókn­ir úr stór­um þýðum þaðan hafi vísað til þess að ávinn­ing­ur­inn af bólu­setn­ing­um vegi mun þyngra en áhætt­an af bólu­setn­ing­unni.

Eng­ar al­var­leg­ar auka­verk­an­ir

Enn hafa eng­ar al­var­leg­ar auka­verk­an­ir komið fram í kjöl­far bólu­setn­inga 5-11 ára ald­urs­hóps­ins en hins veg­ar hef­ur borið á al­var­leg­um auka­verk­un­um í kjöl­far kór­ónu­veiru­sýk­ing­ar, þótt þær séu ekki jafn al­geng­ar eins og hjá full­orðnum. Er þá aðallega um fjöl­kerfa­bólgu­sjúk­dóm (MIS-C) að ræða. Að því er Þórólf­ur best veit hef­ur að minnsta kosti eitt barn greinst með þann sjúk­dóm hér­lend­is eft­ir að hafa sýkst af veirunni.

„Það er mjög mikið bólgu­svar sem kem­ur í kjöl­far sýk­ing­ar­inn­ar sem veld­ur skemmd­um og bólgu í mjög mörg­um líf­fær­um með al­var­leg­um af­leiðing­um. Það geta verið nýrun, hjartað, heil­inn og hvað sem er. Þetta er mjög al­var­legt sjúk­dóms­ástand.“

Lík­ur á að börn fái hjarta­bólg­ur í kjöl­far Covid-19 sjúk­dóms­ins eru minni í sam­an­b­urði við eldri ald­urs­hópa og má því ætla að lík­ur á hjarta­bólg­um eft­ir bólu­setn­ingu séu einnig minni.

Ónæm­is­svarið gott

Þórólf­ur seg­ir bólu­setn­ing­ar meðal ung­linga hafa skilað góðum ár­angri og rann­sókn­ir er­lend­is frá vísi til þess að ónæm­is­svarið hjá yngri börn­um sé bara svipað. „Þannig það eru góð rök fyr­ir því að bólu­setn­ing­in muni virka líka jafn vel hjá þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert