Gestum Laugardalslaugar vísað á dyr

Nokkrir sundgestir fóru fýluferð í Laugardalslaug í morgun.
Nokkrir sundgestir fóru fýluferð í Laugardalslaug í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sá fáheyrði atburður átti sér stað í Laugardalslaug í morgun að gestum sem hugðust stinga sér til stunds var ekki hleypt ofan í laugina vegna starfsmannaeklu. Þetta staðfestir starfsmaður laugarinnar í samtali við mbl.is.

Einn gestanna sem hugðist sækja laugina í morgun segir sundlaugargestina eðlilega hafa verið ósátta við þetta.

Elstu sundlaugargestirnir muna ekki annað eins,“ segir hann við mbl.is.

Að sögn hans höfðu nokkrir þeirra gesta sem mætt höfðu við opnun þegar farið í sturtu þegar þeim var meinaður aðgangur að lauginni og þeim tjáð að það væri vegna þess að ekki væri tilskilinn fjöldi starfsmanna mættur á svæðið til að sinna störfum sem meðal annars lúta að öryggisgæslu.

Gestirnir hafi því þurft frá að hverfa, blautir og með skottið á milli lappanna.

„Þeir gestir sem síðar komu mættu svo köldu hliðinni á útidyrahurð laugarinnar.“

Þegar mbl.is. náði tali af starfsmanni laugarinnar hafði laugin þegar verið opnuð á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert