Líklegt er að vísindamenn fari að sjá rafleiðni í Gígjukvísl á næstu tveimur sólarhringunum, sem bendir til þess að hlaup sé þar hafið.
„Mér finnst líklegt að við sæjum það eftir einn sólarhring eða tvo,“ segir Eyjólfur Magnússon, jöklafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Eldgos hafa fylgt í kjölfar Grímsvatnahlaupa en ómögulegt er að segja til um hvort slíkt verði á þessari stundu.
En svipaðar fréttir birtust fyrir ári síðan um líklegt hlaup í Grímsvötnum, en síðan virtist svo ekki vera. Gæti það sama verið uppi á teningnum nú?
„Þá var bara eitt nákvæmnistæki í gangi og þá byrjaði mastrið að halla,“ útskýrir Eyjólfur, sem hafi verið óheppilegt. „Það er ekkert svoleiðis í gangi núna. Það er greinilegt að það er sig í gangi núna,“ segir hann.
Eyjólfur reifar, líkt og fram kom í tilkynningu Veðurstofu í dag, að sterkar vísbendingar séu um að vatn sé farið að renna úr grímsvötnum en það sýni sig á íshellunni.
„En það er ekkert byrjað í Gígjukvísl. Þannig að við erum ekki ennþá farin að tala um að hlaup sé hafið, vegna þess að það er ekki komið í ána.“
Hvenær getum við búist við því að það gerist?
„Það er dálítið erfitt að segja því við höfum aldrei verið með jafn nákvæma mælingu á hellunni eins og núna. Líkur á því á næstu tveimur sólarhringum færum við að sjá aukna leiðni í Gígjukvísl. Það er dálítið erfitt að segja. Mér finnst líklegt að við sæjum það eftir einn sólarhring eða tvo, en það er ekkert útilokað að eitthvað gerist á næstu klukkustundum, í nótt eða í fyrramálið.“
Slíkt ræðst af því hversu hratt hlaupið rís að sögn Eyjólfs. Þá gætu 4-5 dagar liðið frá því leiðni greinist í Gígjukvísl þar til hlaupið nær hámarki.
Hvað með gos? Er eitthvað hægt að segja til um hvort það verði?
„Það er bara ómögulegt að segja. Slíkt getur gerst og hefur gerst áður, það gerðist 2004 og við vorum að vonast eftir því að það myndi gerast 2010, en síðan gaus hálfu ári síðar,“ segir hann að lokum.