Mikill músagangur hefur verið í uppsveitum Árnessýslu að undanförnu. Á sveitabæjum hafa heimiliskettir ekki undan í veiðum á músum, sem skríða inn um göt, gættir og glugga og inn í hús, jafnvel í svefnherbergi og eldhús. Vegna þessa eru íbúar á svæðinu á varðbergi og eru líka minnugir þeirrar alþýðuspeki, að séu mýs áberandi að hausti viti slíkt á fannfergi á nýju ári.
„Þetta hefur verið algjör plága nú síðasta mánuðinn,“ segir Ottó Eyfjörð Jónsson sem hefur umsjón með orlofshúsabyggð BHM í Brekkuskógi í Bláskógabyggð. „Eitthvað er um að mýs hafi komist inn í bústaði hér á svæðinu og nokkrar sluppu inn í þjónustumiðstöðina. Við höfum kallað á meindýraeyði sem hér hefur sett upp litla kassa með eitri í. Þar fara mýsnar inn en skríða svo aftur í holur sínar og eru þar með úr sögunni. Ég hef síðustu daga heyrt miklar lýsingar á músagangi víða hér í uppsveitunum. Starfi mínu fylgir einnig að ég lít eftir sumarhúsum BHM við Hreðavatn í Borgarfirði og þar er staðan svipuð.“
Í Hrunamannahreppi er músagangurinn sömuleiðis mikill og smádýrin skæð. Að undanförnu hefur það þrívegis gerst að mýs hafi komist inn í tengiskápa fjarskiptalagna, nagað þar í sundur víra og með því skemmt búnað. „Ljósleiðaramýsnar eru til vandræða. Við þurfum að halda þessum greyjum í skefjum,“ sagði Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri á Flúðum, í samtali við Morgunblaðið.