Forsætis- og dómsmálaráðherra hafa ákveðið að kannað verði hvernig rannsaka megi aðstæður barna sem vistuð voru á Hjalteyri en eftir að lög um Vistheimilanefnd voru felld úr gildi í fyrra hefur skortur verið á lagastoð um hver eigi að hefja rannsókn á þessu máli. Þetta herma heimildir mbl.is hjá forsætisráðuneytinu.
Hörgársveit hefur óskað eftir því að ríkið hefji rannsókn á starfsemi vistheimilisins að Hjalteyri og boðið fram aðstoð sína við þá rannsókn. Beiðnin kom fram í bréfi sem sent var á forsætis- og dómsmálaráðherra.
Eins og kom fram í frétt Rúv virtist ekki liggja ljóst fyrir hvaða ráðuneyti væri með mál barnaheimilisins á Hjalteyri á sínu forræði. Sagði forsætisráðherra það hlutverk dómsmálaráðherra fara með ákvörðunarvald um hvort að rannsókn á heimilinu færi fram, og öfugt.
Hjá forsætisráðuneytinu fengust þær upplýsingar að í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnmálaefna er kveðið á um að dómsmálaráðuneytið fari með mál er varði rannsókn á starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.
Í ljósi þess að lög nr. 26/2007 um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn hafa verið felld úr gildi skortir hins vegar lagastoð til að hefja rannsókn á þessu tiltekna máli. Á þessu byggðu því ólík svör um hvaða ráðuneyti færi með málið.
Hafa forsætis- og dómsmálaráðherra nú ákveðið að unnin verði greinargerð um það hvort og hvernig unnt er að koma til móts við þær óskir sem hafa borist um rannsókn á aðstæðum barna sem voru vistuð á Hjalteyri, eftir atvikum í samstarfi við viðkomandi sveitarstjórnir.
Samkvæmt lögum nr. 26/2007 hafði Vistheimilanefnd ráð yfir því hvaða heimili skyldu sæta sérstakri könnun. Í fyrra voru þau lög felld úr gildi með lögum nr. 148/2020 þegar ekki var talin þörf á frekari rannsóknum vistheimila.