Eftir á fjórða tug funda lauk undirbúningskjörbréfanefnd störfum á mánudag og í gær tók formleg kjörbréfanefnd við störfum. Sömu aðilar mynda kjörbréfanefndina og strax að lokinni þingsetningu fundaði nefndin. Meirihluti nefndarinnar, sem samanstendur af Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Flokki fólksins, mun leggja fram tillögu þess efnis að kjörbréfin sem gefin voru út í kjölfar seinni talningar í Norðvesturkjördæmi verði staðfest.
Blaðamaður heyrði í þingmönnum frá öllum flokkum nema einum, en ekki tókst að ná í þingmenn Miðflokksins við vinnslu fréttarinnar. Skipta má í raun landslaginu upp í þrjá meginhópa: Meirihlutann sem búast má við að kjósi með tillögunni; þá sem telja uppkosningu vænlegri leið og loks þá sem ekkert vildu gefa upp. Reyndar skera Píratar sig út úr þessari flokkun en þeir telja vænlegast að láta kjósa upp á nýtt á landinu öllu. Ljóst er þó að ekki er lagastoð fyrir slíkri tillögu og verður því að koma í ljós hvað þeir hafa í hyggju.
Diljá Mist Einarsdóttir og Vilhjálmur Árnason, nefndarmenn Sjálfstæðisflokks, sögðu í samtali við Morgunblaðið að nú myndu þingmenn flokksins kynna sér gögn málsins og taka síðan ákvörðun út frá eigin samvisku, líkt og kveðið er á um í stjórnarskrá. Bæði bentu þau þó á að þau, ásamt Birgi Ármannssyni, nytui fulls trausts þingflokksins við vinnu nefndarinnar og gáfu að vissu leyti í skyn að tilfinningin væri sú að meirihluti þingflokksins myndi kjósa með tillögunni. Ítrekuðu þó að þingmenn væru bundnir eigin sannfæringu og ekki væri hægt að fullyrða neitt fyrr en á fimmtudag.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þing- og nefndarmaður Framsóknar, tók í svipaðan streng. Erfitt væri að fullyrða um einstaka þingmenn og nú myndu allir kynna sér gögnin og taka svo upplýsta ákvörðun. „Tilfinning“ hennar væri samt sú að meirihluti yrði fyrir tillögunni á þingi. Inga Sæland frá Flokki fólksins sagði þá að „þingflokkurinn gengi í takt“ og myndi kjósa með tillögunni.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, var ekki sammála áliti meirihluta nefndarinnar og sagðist hún gera ráð fyrir því að þingflokkurinn yrði samstiga í því að kjósa gegn tillögu meirihluta nefndarinnar og því samþykkur uppkosningu í kjördæminu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, vildi ekki tjá sig um sína eigin afstöðu en ljóst væri að þingmenn væru bundnir eigin sannfæringu og innan þingflokks Viðreisnar hefði ávallt legið fyrir að engin skýr flokkslína yrði dregin í þessu máli. Þó er vert að minnast á að Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, ritaði grein í blað dagsins þar sem verulega er gefið í skyn að hún muni kjósa gegn tillögunni og því með uppkosningu.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.