Uppsveifla að hefjast?

Holdafar rjúpna í haust var með því besta sem sést hefur fyrir unga fugla og það besta hjá fullorðnum fuglum, samanborið við fyrri ár. Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur og rjúpnasérfræðingur Náttúrufræðistofnunar, telur að þetta geti verið vísbending um að uppsveifla rjúpnastofnsins sé að hefjast.

„Fuglarnir fara í góðum holdum inn í veturinn, bæði fullorðnar rjúpur og ungfuglarnir sem verða uppistaðan í næsta árgangi,“ segir Ólafur. Hann segir að Náttúrufræðistofnun eigi mælingar á ýmsum lýðfræðilegum þáttum rjúpunnar, svo sem afföllum, stofnbreytingum og stofnvísitölum, sem hægt sé að bera saman við tímaröðina fyrir holdafar fuglanna. „Samsvörun á milli raðanna er ekki fullkomin en það er leitni í átt. Þannig virðist vera hliðrun á stofnvísitölu og holdastuðli þannig að stuðullinn er hæstur þegar stofninn er í uppsveiflu. Samanburður á hlutfallslegum stofnbreytingum á milli ára og holdastuðlinum, allavega fyrir fyrstu ár þessara rannsókna, benti til að þessar tvær raðir breyttust í takt en síðustu ár hafa raðirnar verið úr fasa við þessa mynd. Allavega sjáum við miklar breytingar í holdafari fuglanna á milli ára og mjög líklega hafa þessar breytingar áhrif á lýðfræði rjúpunnar,“ segir Ólafur.

Ekki er alveg ljóst hvers vegna rjúpan, bæði fullorðnir fuglar og ungfuglar, kom jafn vel út úr sumrinu og haustinu og nú. Holdastuðullinn sýnir að rjúpan hefur haft það gott. Þar vegur þyngst tímabilið frá júlí og fram í september. Mögulega ræður hér að einhverju leyti sú einmunablíða sem ríkti á Norðausturlandi á þessum tíma.

Rjúpan hefur yfirleitt nóg að bíta en fæðan getur verið misjafnlega góð eða auðmelt á milli ára.

„Rannsókn okkar á heilbrigði rjúpunnar, en þar var gögnum safnað í byrjun október á hverju ári frá 2006 til 2018, sýndi að meltingarvegur rjúpnanna tók miklum breytingum á milli ára. Það var talið endurspegla meltanleika fæðunnar. Tormeltari fæða kallar á lengri meltingarveg en auðmelt fæða. Þegar holdastuðullinn var mældur nú í byrjun nóvember var lengd meltingarvegar fuglanna ekki mæld enda þarf þá að fara innan í fuglana.“

Ólafur segir að það hafi komið fram í tengslum við veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar fyrr á þessu ári að væntanlega nái sveifla rjúpnastofnsins botni næsta vor eða þar næsta. „Gott líkamlegt ástand fuglanna nú getur bent til þess að umskipti sveiflunnar séu yfirvofandi,“ segir Ólafur. Hann segir að stofnbreytingar rjúpunnar séu almennt á þann hátt að lágmarkið geti varað í tvö til þrjú ár. Topparnir eru hins vegar hvassir og hefst samdráttur stofnsins strax ári eftir að toppi er náð. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert