Allar líkur eru á því að vatn sé farið að streyma úr Grímsvötnum og von sé á hlaupi í Gígjukvísl en íshellan í Grímsvötnum hefur sú sigið um tæpa 60 sentimetra á síðustu dögum og hraðinn aukist síðasta sólarhringinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar sem kemur í kjölfar fundar Vísindaráðs almannavarna, sem lauk laust eftir fjögur í dag.
Of snemmt er að fullyrða um hvert umfang hlaupsins getur orðið en miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum núna má reikna með að hámarksrennsli þess verði um 5.000 m3/s. Slíkt rennsli hefði lítil áhrif á mannvirki á borð við vegi og brýr.
Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan en íshella Grímsvatna hóf að síga skyndilega í morgun.
Miðað við fyrri hlaup má gera ráð fyrir að hlaupvatn komi fram við jökuljaðar á næstu tveimur dögum og muni ná hámarki á 4 til 8 dögum eftir það, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Engin aukning hefur mælst í rafleiðni í Gígjukvísl en það er skýrasta merki þess að hlaupvatn sé komið undan jöklinum. Veðurstofan er með gasmæla við upptök Gígjukvíslar sem einnig gæfu vísbendingar um hvort hlaupvatn sé í farveginum og fylgist því grannt með þróun mála í Grímsvötnum.