Vísindaráð almannavarna settist á fund nú klukkan korter yfir þrjú til þess að funda um stöðuna í Grímsvötnum en þar er íshellan tekin að síga.
Það að íshellan sé tekin að síga getur verið vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum og dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Von er á tilkynningu frá Vísindaráði síðar í dag.
Íshella Grímsvatna tók að síga hratt og skyndilega í dag en nú klukkan 14.30 sýndu óyfirfarnar GPS-mælingar Veðursofunnar að hún hafi sigið um u.þ.b. fjóra metra síðan í morgun. Þetta kemur fram í facebookfærslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.
Síðast hljóp úr Grímsvötnum í júní 2018 en ekki hefur gosið síðan 2011.
Morgunblaðið fjallaði um það í sumar að líklegt sé að Grímsvötn hlaupi á þessu ári en litlar líkur eru taldar vera á mjög stóru hlaupi. Mikið vatn hefur safnast í Grímsvötn en vatnshæðin er nú hærri en fyrir gos sem þar varð í maí 2004.