„Við vorum bara að tryggja öryggi gesta og því miður þurftum við að loka þarna í stutta stund,“ segir Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, í samtali við mbl.is.
Ófyrirsjáanleg röð atburða hafi valdið því að ekki var hægt að hleypa fólki ofan í laugina á milli klukkan 6:30 og 7:05 í morgun, að sögn Árna.
„Það eru níu starfsmenn sem opna laugina á morgnana en þrír þeirra voru veikir. Svo hringir fjórði starfsmaðurinn sinn inn veikan en þó ekki fyrr en rétt upp úr klukkan 6:30. Áður en hann hringdi töldum við að hann væri bara rétt ókominn. Þannig að við vorum í von og óvon um að láta þetta ganga upp. Hefðum við haft sex starfsmenn hefði dugað að loka innilauginni bara.“
Þegar það lá fyrir að starfsmenn yrðu undirmannaðir þennan morguninn hafi þeir starfsmenn sem mættir voru til vinnu reynt að hafa samband við Árna til að láta hann vita af stöðunni og leita ráða hjá honum.
„En ég var bara heima að vekja krakkana mína, með símann á silent og tek því ekki eftir því að það sé verið að reyna hringja í mig á þessum tíma.“
Í ljósi þess að mönnun í lauginni stóðst ekki reglugerð og ekki náðist í stjórnendur laugarinnar hafi starfsmenn hennar sjálfir tekið ákvörðun um að loka lauginni. Árni segir það hafa verið mjög ábyrgt af þeim enda eigi öryggi sundlaugargesta alltaf að vera í fyrirrúmi.
„Öryggið er númer eitt, tvö og þrjú því reglugerðin gerir ráð fyrir ákveðinni mönnun uppi á bakka. Í gegnum tíðina hefur það verið mjög ríkt í okkur Íslendingum að trúa því að hlutirnir reddist bara en við getum ekki hugsað svoleiðis þegar kemur að öryggi.“
Þótt starfsmenn sundlaugarinnar hafi vissulega verið settir í óþægilega stöðu með þessu hafi flestir ef ekki allir þeirra sem sóttu laugina í morgun sýnt aðstæðunum skilning, segir Árni, inntur eftir því.
Aðeins 35 mínútur hafi liðið frá því lauginni var lokað þar til hún var opnuð aftur í morgun og hefur fjöldi gesta sótt laugina síðan þá, að sögn Árna.
„Það eru bara allir kátir og við hlökkum til að fá sem flesta í dag og aftur í fyrramálið.“