Smittíðni í samfélaginu virðist hafa mikil áhrif á hvernig fólki líður í heimsfaraldrinum en fyrstu niðurstöður COVIDMENT-rannsóknarverkefnisins sýna að andleg líðan sveiflist að einhverju leyti með nýgengi Covid-19 smita.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vegum rannsóknarhópsins.
Um 400 þúsund manns tóku þátt í rannsóknarverkefninu frá sex löndum, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Eistlandi, Skotlandi og Íslandi. Hægt er að lesa um niðurstöður þess í grein í nýjustu útgáfu vísindatímaritsins International Journal of Epidemiology.
Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Háskóla Íslands leiðir verkefnið, en helstu markmið þess er að auka þekkingu á langvarandi áhrifum heimsfaraldursins á geðheilsu og sérstakra áhættuhópa.
Rannsóknin byggist á könnunum meðal almennings og lífsýnabönkum, alls sjö ferilrannsóknum í löndunum öllum, en frá mars 2020 og til ágúst 2021 tóku hátt í 400 þúsund manns þátt.
Í fyrstu niðurstöðum kemur meðal annars fram að tíðni þunglyndiseinkenna var hæst hjá ungu fólki og meðal kvenna. Þá mátti einnig sjá hærri tíðni þegar meðalfjöldi staðfestra vikulegra Covid-19 smita á hverja 100 þúsund einstaklinga var 30. Var tíðnin 60% hærri en þegar meðalfjöldi smita var 0. Má því ætla að andleg líðan almennings hafi að einhverju leyti fylgni við nýgengi smita.
„Þessar niðurstöður eru mikilvægar því þær auka þekkingu á langtímaáhrifum Covid-19 á geðheilsu almennings en einnig geta þær nýst í viðbrögðum við mögulegum framtíðarfaröldrum,“ er haft eftir Önnu Báru Unnarsdóttur, verkefnisstjóra og doktorsnema við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og fyrsta höfund vísindagreinarinnar.
Í framhaldinu mun rannsóknarhópurinn vinna að verkefnum sem munu meðal annars varpa ljósi á áhrif Covid-19 á geðheilsu heilbrigðisstarfsfólks, nánustu aðstandendur smitaðra og þeirra sem hafa upplifað tekjumissi vegna faraldursins.
Auk þess verða langtíma áhrif Covid-19 á geðheilsu skoðuð ásamt hugrænum áhrifum vegna Covid-19 og viðhorf gagnvart bólusetningum.