Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna roks eða ofsaveðurs undir Vatnajökli í nótt og fram á morgun. Búist er við norðan og norðvestan átt með vindhraða upp á 25-33 m/s og að staðbundnar snarpar vindhviður geti náð yfir 45 m/s.
Í viðvörun Veðurstofunnar kemur fram að búast megi við samgöngutruflunum og að ekkert ferðaveður sé á meðan veðrið gangi yfir.
Strax í kvöld er búist við að veður versni á Suðausturlandi og Austfjörðum og er þá gul viðvörun. Á Austfjörðum er búist við norðvestan stormi eða roki 20-28 m/s með snörpum vindhviðum yfir 35 m/s. Um miðnætti hækkar viðvörunarstigið á Suðausturlandi í appelsínugult og er þannig fram eftir morgni þegar gul viðvörun tekur aftur við fram yfir hádegi.