Fjórir haft samband vegna málsins

Gunnar Einarsson.
Gunnar Einarsson. mbl.is/RAX

Fjórir aðilar hafa haft samband við bæjarskrifstofur Garðabæjar vegna skoðunar bæjarins á störfum hjónanna Beverly Gíslasonar og Einars Gíslasonar. Bærinn hefur hvatt fólk til að hafa samband vegna málsins.

Hjónin starfræktu Montessori-leikskóla í Sjálandsskóla og störfuðu einnig sem dagforeldrar í bænum. Áður ráku þau barnaheimili á Hjalteyri en fólk sem dvaldi þar segist hafa orðið fyrir illri meðferð og kynferðisofbeldi af þeirra hálfu.

Garðabær.
Garðabær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar, hafa þessir fjórir aðilar bæði hringt og sent tölvupósta. Þar hafa þeir lýst yfir áhyggjum sínum af málinu, óskað eftir því að vera upplýstir um framvinduna eða greint frá jákvæðri reynslu sinni af störfum hjónanna. Enginn þessara aðila hefur komið með ábendingu um að eitthvað slæmt hafi átt sér stað.

Gunnar hvetur fólk áfram til að hafa samband í tengslum við málið, til dæmis ef það óskar eftir faglegri leiðsögn. „Við skráum allt hjá okkur og reynum að hafa yfirsýn yfir þetta,“ segir hann.

Engin aðstoð frá félagsmálaráðuneyti

Garðabær hafði samband við félagsmálaráðuneytið vegna málsins. Í svari sem barst bænum í morgun segist ráðuneytið ekki geta tekið þátt í úttekt á starfsemi hjónanna í bænum. Það geti ekki átt aðild að einstöku máli nema það sé hluti af stærri aðgerð af hálfu ríkisvaldsins.

Bærinn var einnig í sambandi við Samband íslenskra sveitarfélaga og þaðan komu ábendingar um aðila sem gætu aðstoðað við frekari rannsókn á málinu. Að sögn Gunnars er þar um að ræða bæði einstaklinga og fyrirtæki. Enginn lagarammi er aftur á móti til staðar til að ræða við stofnanir um aðstoð.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ætla að vanda til verka 

Greint var frá því í gær að forsætis- og dómsmálaráðuneytið ætluðu að kanna hvernig rannsaka megi aðstæður barna sem voru vistuð á Hjalteyri en eftir að lög um vistheimilanefnd voru felld úr gildi í fyrra hefur verið skortur á lagastoð um hver eigi að hefja rannsókn á málinu. Gunnar segir fyrirhugaða rannsókn á því sem gerðist á Hjalteyri vera sjálfstæða og að athugunin í Garðabæ tengist henni ekki.

Spurður segir hann að einhvern tíma gæti tekið að hefja stærri úttekt á störfum hjónanna í Garðabæ. „Það þyrfti að vanda til þess. Við erum ekki að fara í einhverja skemmri skírn í því. Við gerum það eins faglega og þétt og vel og hægt er. Við myndum ekki vilja fá gagnrýni á slæleg vinnubrögð í því samhengi,“ greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert