Stjórnendur Landspítalans munu funda með landlækni í dag um nýjustu upplýsingar sem hafa komið fram vegna lögreglurannsóknar á andláti sex einstaklinga á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Eftir það verður staðan metin, að sögn Andra Ólafssonar, samskiptastjóra Landspítala.
Hann bætir við að upplýsingarnar sem komu fram í gær hafi verið nýjar fyrir stjórnendur spítalans.
Fram kom í gær að lögreglan rannsaki einnig meðferð fimm annarra sjúklinga sem rökstuddur grunur er um að hafi verið skráðir í lífslokameðferð að tilefnislausu og með því hafi öryggi þeirra verið ógnað.
Í samtali við RÚV í gær sagðist Alma Möller landlæknir ekki getað tjáð sig um einstaka mál en að óskað verði eftir frekari upplýsingum frá lögreglu í ljósi frétta dagsins.
Læknirinn sem tengist málinu hætti hjá HSS eftir að rannsókn hófst en síðan þá hefur hann starfað hjá Landspítalanum.