Fyrsta heimsókn bólusetningabílsins sem átti að fara fram í morgun var afbókuð eftir að upp kom smit á vinnustaðnum sem átti að vitja til og voru starfsmenn komnir í sóttkví. Þetta staðfesti Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Í síðustu viku var greint frá því að strætó yrði notaður við bólusetningaátak og var hugmyndin þá sú að honum yrði ekið um götur höfuðborgarsvæðisins og fólki yrði boðið að koma um borð og þiggja bólusetningu. Átti þannig að ná til þess hóps sem væri enn óbólusettur.
Hugmyndin hefur hins vegar breyst að sögn Ragnheiðar en til að byrja með verður einungis um sjúkrabíl að ræða og fer starfsemin fram eftir bókunum. Mun bílinn fara á milli vinnustaða þar sem að bólusetning verður kynnt fyrir starfsfólki og þeir sem óska sér geta þegið eina slíka.
Að sögn Ragnheiðar hefur töluverður áhugi verið hjá fyrirtækjum um bólusetningabílinn og hefur fjölda fyrirspurna borist. „Við erum ofsalega glöð með það og við hvetjum endilega fyrirtæki sem eru með óbólusett fólk hjá sér í starfi að hafa samband.“
Átakið á að hefjast í dag og voru tvær heimsóknir bókaðar en sú fyrri féll þó miður upp fyrir vegna smits í starfshópnum, sem að sögn Ragnheiðar er sérlega óheppilegt ef stór hluti starfsfólks er óbólusettur.
Til að byrja með verður áhersla lögð á að heimsækja verktakafyrirtæki í bólusetningaátakinu en eins og áður hefur komið fram er stór hluti óbólusettra hér á landi erlendir verkamenn.
„Oft grunar okkur að þetta sé fólk sem er utan við þá upplýsingagjöf sem á sér stað hér á Íslandi sem fer fram á íslensku,“ segir Ragnheiður og bætir við að oft sé fólk með upplýsingar frá sínu heimalandi sem eru oft og tíðum ekki þær sömu og þær sem liggja fyrir hér. „Okkur langar að koma þeim upplýsingum á framfæri til þeirra.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir margar ástæður fyrir því að erlendir verkamenn séu hér óbólusettir, meðal annars geti það verið upplýsingaskortur af hálfu yfirvalda. Verið er að skoða hvernig ná megi betur til þess hóps sem er óbólusettur, meðal annars hvort að hægt sé að bólusetja við landamærin.
„Það eru ekki allir skráðir í kerfið og fá hefðbundna boðun eins og Íslendingar. Ef fólk kemur hingað sem ferðamenn og fer svo bara að vinna í tvo mánuði, þá er þetta fólk hvergi á skrá þannig að við getum ekki sent þeim boð nema vita af þeim. Það er það sem við erum að reyna að ráða bót á með vinnumarkaðnum, reyna að fara á þessa staði og vita hvar þetta er,“ segir Þórólfur.