Meiri þensla og meiri þrýstingur en síðast

Gos í Grímsvötnum. Mynd úr safni.
Gos í Grímsvötnum. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Virkasta eldstöð Íslands, Grímsvötn, hefur verið komin að því að gjósa í að minnsta kosti ár eða tvö. Hlaup virðist hafið úr vötnunum og til eru mörg dæmi um að gos fylgi í kjölfar slíkra hlaupa. Hvort tveggja þrýstingur að ofan og þensla að neðan mælast meiri en fyrir síðasta eldgos, árið 2011, sem þó var óvenju öflugt.

Í raun er aðeins vitað um tvö álíka stór eldgos í sjálfum Grímsvötnum á undanförnum 400 árum. Til samanburðar gýs þar á um tíu ára fresti að meðaltali.

Urðu þau gos árin 1619 og 1873.

Kvikusöfnun í eldstöðinni virtist þegar í fyrra hafa náð sama marki og fyrir kröftuga eldgosið árið 2011, ef mið er tekið af þenslumælingum í Grímsfjalli. Síðan þá hefur fjallið þanist meira út.

Þegar hlaup verður úr vötnunum hverfur um leið mikið farg af kvikuhólfinu. Þrýstingurinn að ofanverðu léttist og auðveldar kvikunni undir niðri leið upp á yfirborðið, ef hún er á annað borð til staðar og eldstöðin að öðru leyti komin að því að gjósa.

Björgunarsveitarmaður að störfum á meðan gosið stóð yfir árið 2011.
Björgunarsveitarmaður að störfum á meðan gosið stóð yfir árið 2011. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá nokkrum dögum til sjö mánaða

Þess ber að geta að jökulhlaup úr Grímsvötnum geta staðið yfir í nokkra daga og jafnvel nokkrar vikur áður en eldgos hefst.

Að þessu sinni er þó búist við því að hlaupið nái hámarki í næstu viku, eða á einhverjum tímapunkti frá mánudegi og fram á föstudag.

Eldgos í eldstöðinni hafa verið talin geta varað frá nokkrum dögum til sjö mánaða. Síðasta gos, sem var mjög kröftugt, varði í aðeins sjö daga. Það fylgdi ekki jökulhlaupi.

Sú var aftur á móti raunin árið 2004. Hafði hlaup þá staðið yfir í nokkra daga.

Mælar á Veðurstofu Íslands sýna fram á jarðhræringar við Grímsvötn. …
Mælar á Veðurstofu Íslands sýna fram á jarðhræringar við Grímsvötn. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Virkasta eldstöð Íslands

Grímsvötn eru eins og áður sagði virkasta eldstöð Íslands. Vitað er til fleiri en sextíu eldgosa í og við eldstöðina frá því um árið 1200. Jafnframt eru þau eitt öflugasta jarðhitasvæði landsins.

Stöðuvatn er í öskju Grímsvatna undir jöklinum. Það endurnýjast stöðugt vegna jarðhitans og eldgosa.

Bræðsluvatn safnast þar fyrir, þar til það sprettur fram í jökulhlaupum eins og nú er vænst í Gígjukvísl suður af Skeiðarárjökli.

Til eru margar heimildir um hlaup sem þessi og ná þær aldir aftur í tímann.

Frá Grímsvötnum. Samhliða jökulhlaupi fara líkur á eldgosi vaxandi.
Frá Grímsvötnum. Samhliða jökulhlaupi fara líkur á eldgosi vaxandi. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Þensla að neðan og þrýstingur að ofan

Áður hefur mbl.is fjallað um þá staðreynd að vatnshæðin í Grímsvötnum er mun meiri en verið hefur fyrir síðustu hlaup sem runnið hafa frá eldstöðinni.

Raunar hefur hún ekki verið meiri síðan fyrir Gjálpargosið svonefnda árið 1996. Þrýstingurinn á eldstöðina að ofanverðu hefur því ekki verið meiri um langt skeið.

Á sama tíma er þensla eldstöðvarinnar komin umfram þensluna fyrir síðasta gos, en hún náði því marki á síðasta ári. Af þeirri ástæðu var litakóði fyr­ir flug­um­ferð yfir eld­stöðinni færður yfir í gult í lok sept­em­ber í fyrra. 

Síðan þá hefur hvort tveggja einungis aukist, þenslan að neðan og fargið að ofan. Og nú er fargið að renna á brott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert