Það ræðst að líkindum á Alþingi í dag hverjar lyktir kjörbréfamálsins verða. Í hnotskurn snýst málið um það hvort ágallar á framkvæmd kosningar í Norðvesturkjördæmi hafi verið svo miklir, að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninga.
Verði það niðurstaða þingsins þarf að fara í svokallaða uppkosningu, sem er endurtekning fyrri kosningar, með sömu frambjóðendum og sömu kjósendum, þannig að kjörskrá yrði ekki uppfærð. Hana þarf að halda innan fjögurra vikna, en sá frestur yrði tæplega allur notaður, því fáir vildu sjálfsagt þurfa að kjósa daginn fyrir Þorláksmessu.
Sú verður þó líkast til ekki raunin. Fyrir liggur að þingmenn Sjálfstæðisflokks vilja staðfesta fyrri niðurstöðu og svo mun einnig um framsóknarmenn og þingmenn Flokks fólksins. Svandís Svavarsdóttir mun vilja uppkosningu, en eftir því sem næst verður komist á það engan veginn við um alla þingmenn Vinstri-grænna. Að öðru leyti er stjórnarandstaðan ekki einhuga í afstöðu.
Þótt mikið sé um þessi mál rætt meðal þingmanna og hinna skrafandi stétta verður ekki sagt að landslýður sé mjög upprifinn vegna þessa. Hluti ástæðunnar er sjálfsagt sá að stjórnarmeirihlutinn er öruggur og endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf virðist gulltryggt og það breytist trauðla með uppkosningu.
En það er ekki þar með sagt að pólitískir hentugleikar skipti engu máli. Þannig er sjálfsagt ekki helber tilviljun að Framsókn og Flokkur fólksins – sem margir útnefndu sigurvegara kosninganna – kæri sig ekki um uppkosningu og hugsanlegar breytingar.
Nú hefur uppkosning aldrei áður farið fram til Alþingis, svo menn hafa ekki á neinu að byggja um kosningahegðan. Þar mun þó örugglega mjög mikið velta á kjörsókn, sem að líkindum yrði talsvert minni en í almennum kosningum. Hún getur haft veruleg áhrif á úthlutun uppbótarsæta. Þau eru reiknuð út frá ónýttum atkvæðum flokka í kjördæmunum öllum, svo þar getur kjörsókn skipt sköpum.
Svo hafa fyrri úrslit áhrif. Þegar endurnýjað stjórnarsamstarf liggur fyrir er ósennilegt að það verði stuðningsmönnum stjórnarandstöðunnar sérstök hvatning til þess að ómaka sig á kjörstað. Enn síður ef þeir eru víðs fjarri því að fá þingmann í því kjördæmi. Aðeins af þeirri ástæðu má teljast líklegt að ríkisstjórnarflokkarnir hafi nokkra forgjöf í uppkosningu.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaði dagsins.