Júlíus Freyr Guðmundsson er nýr handhafi Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar. „Þetta er ágætisviðurkenning á því sem ég hef verið að gera,“ segir Júlíus Freyr, sem hefur lagt mikið af mörkum til tónlistar og leiklistar í bænum og eru verðlaunin, sem hann fékk afhent um helgina, viðurkenning á því starfi.
Hljómsveitin Deep Jimi and the Zep Creams vakti mikla athygli fyrir um þremur áratugum, þegar hún gerði plötusamning við East West, dótturfyrirtæki Warner Brothers í Bandaríkjunum. Hún er enn á fullu skriði og gefur ekkert eftir. „Við erum að vinna að nýrri plötu,“ segir Júlíus Freyr, sem vinnur annars við eigið hugbúnaðarfyrirtæki og sinnir listinni til hliðar við dagvinnuna. Hann er auk þess í bandinu Bergrisunum og hefur enn fremur gefið út efni undir nafninu Gálan. „Listin hefur alltaf skipað stóran sess í mínu lífi og gerir það áfram,“ leggur hann áherslu á.
Guðmundur Rúnar Júlíusson og María Baldursdóttir, foreldrar Júlíusar Freys, voru þekkt á tónlistarsviðinu og hann hefur ekki síður getið sér gott orð á þeim vettvangi, hvort sem er í hljómsveitum, upptökum og hljóðritunum fyrir sig og aðra eða tengdum verkefnum eins og tónlistarverkefnum vegna söngleikja, revía og leikrita. Bræðurnir Júlíus Freyr og Baldur ásamt móður þeirra og fjölskyldum reka hljóðverið Geimstein og fyrir rúmum áratug opnuðu þau Rokkheima, safn um Rúnar heitinn.
„Eftir að Hljómahöllin varð til höfum við ekki vakið sérstaklega athygli á Rokkheimum en safnið er samt á sínum stað og Geimsteinn er síðan safn út af fyrir sig.“
Áhuginn hefur drifið Júlíus Frey áfram og hann segir árangur Deep Jimi and the Zep Creams með því eftirminnilegra á löngum ferli. „Við komumst á samning við stórfyrirtæki þegar við vorum rétt tvítugir og það var ákveðið afrek hjá ungum mönnum að flytja út og upplifa drauminn.“
Júlíus Freyr hefur starfað með og fyrir Leikfélag Keflavíkur í áratugi og var aðeins 18 ára þegar hann samdi fyrsta söngleik sinn, „Er tilgangur?“ Þá var hann í hljómsveitinni Pandora, sem gerði tónlistina í verkinu. „Það var mikið að gerast á þessum tíma og þessi fyrsti söngleikur minn var mikið afrek.“
Kórónuveirufaraldurinn hefur sett stórt strik í reikninginn hjá Júlíusi Frey og félögum í Deep Jimi and the Zep Creams. Hann segir að hefði ekkert í skorist væru félagarnir búnir að fara til útlanda til þess að taka upp plötu og fylgja henni eftir, og að því leyti sé staðan frekar erfið um þessar mundir. „En ég er alltaf með gítarinn að búa til músík,“ bendir hann á og vísar meðal annars til þess að hann hafi gefið út nokkur lög undir listamannsnafninu Julius & Julia á liðnu ári, þótt það hafi ekki farið hátt. „Ég er svo sem ekki fyrir það að trana mér fram,“ segir hann hógvær, en getur þess í framhjáhaldi að þeir bræður komi reglulega fram og spili lög föður síns. Auk þess hafi Bjartmar og Bergrisarnir sent frá sér tvö lög á liðnu ári og séu að vinna að plötu. „Ef lög eru bara gefin út á rafrænu formi er hætta á að þau verði ekki til eftir 20 ár og því þarf að gefa þau út í föstu formi.“