Tekist á um kjörbréfin og niðurstaða í vændum

Spennandi þingfundur stendur nú yfir.
Spennandi þingfundur stendur nú yfir. mbl.is/Sigurður Bogi

Umræður á Alþingi um rannsókn kjörbréfa er hafin. Í brennidepli verður talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Búast má við því að seinna í dag eða jafnvel seint í kvöld verði kosið um endanlega niðurstöðu í málinu og þá verður ljóst hvort ráðist verður í uppkosningu eða hvort niðurstaða síðari talningar í kjördæminu verði látin standa. 

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks og formaður kjörbréfanefndar, steig fyrstur í ræðustól Alþingis og rakti störf nefndarinnar, atriði í málsatvikalýsingu um talningu í Norðvesturkjördæmi og álit nefndarinnar um mögulegar lyktir málsins. 

Hann segir að álit meirhluta nefndarmanna sé að ekki verði séð að ætla megi að þeir annmarkar, sem á talningu í Norðvesturkjördæmi voru, hafi ráðið úrslitum í kjördæminu. 

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn Pírata gerðu athugasemdir

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, tók næstur til máls og sagði að ekki væri hægt annað en að ráðast í uppkosningu þar sem þrjár mismunandi tölur væru til staðar í Norðvesturkjördæmi; fyrsta talning, endurtalning og svo tölur miðað við þau atkvæði sem undirbúningskjörbréfanefnd fann í endurteknum vettvangsferðum til Borgarness. 

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók til máls þegar Birgir hafði veitt Andrési Inga andsvar. Björn Leví, sem situr í kjörbréfanefnd, benti á að í 3. málsgrein 120. greinar laga um kosningar segi að ef „ætla megi“ að niðurstöður kosninga sýni ekki fram á vilja þjóðarinnar að þá skuli kjósa aftur. 

Birgir svaraði því þá hvað þyrfti til þess að „ætla mætti“ að niðurstöður endurspegluðu ekki vilja kjósenda og sagði hann að til þess þyrfti gögn sem bentu til þess. Þau væru ekki til staðar eftir rannsókn kjörbréfanefndar og því þyrfti að styðjast við meirihlutaálit um að niðurstöður úr síðari tilningu skyldu látnar standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert