Þórunn Eva er framúrskarandi ungur Íslendingur

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin í Safnahúsinu …
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin í Safnahúsinu við Hverfisgötu ásamt Ríkey Jónu Eiríksdóttur, landsforseta JCI. Ljósmynd/Gunnar Thor Sigurjónsson

Þórunn Eva G. Pálsdóttir hlaut í gær titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin í Safnahúsinu við Hverfisgötu ásamt Ríkey Jónu Eiríksdóttur, landsforseta JCI. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samtökin JCI á Íslandi veita verðlaunin á hverju ári en Þórunn var tilnefnd fyrir framlag sitt til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda. Verðlaunagripurinn er einstakt listaverk eftir glerlistamanninn Jónas Braga Jónasson.

Á hverju ári óskar JCI hreyfingin eftir tilnefningum til verðlaunanna og dómnefnd velur síðan 10 einstaklinga sem hljóta viðurkenningu fyrir að vera Framúrskarandi ungir Íslendingar vegna einstaks framlags þeirra til íslensks samfélags.

Verðlaunin sjálf eru síðan veitt til eins einstaklings sem þykir skara sérstaklega fram úr en í ár bárust hátt í 300 tilnefningar. Aðrir sem voru tilnefndir í ár eru Björt Sigfinnsdóttir, Chanel Björk Sturludóttir, Eyþór Máni Steinarsson, Hanna Ragnarsdóttir, Heiðrún Birna Rúnarsdóttir, Isabel Alejandra Diaz, Sindi Geir Óskarsson, Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir og Þorbjörg Þorvaldsdóttir.

Ljósmynd/Gunnar Thor Sigurjónsson

Stofnaði góðgerðarfélagið Mia Magic

Þórunn Eva skrifaði bókina Mia fær lyfjabrunn en hugmyndin að bókinni varð til þegar hún var að gera lokaverkefnið sitt í sjúkraliðanáminu vorið 2019. Lokaverkefnið fékk hæstu einkunn og hvatti kennari Þórunnar að láta verða að þessari bók.

Þórunn stofnaði svo góðgerðarfélagið Mia Magic í kjölfarið. Samtökin gefa langveikum börnum og foreldrum þeirra Miu box með gjöfum einu sinni í mánuði. Öll Míuboxin eru hönnuð út frá þeim einstakling sem fær það afhent og því er hvert og eitt Míubox afar sérstakt rétt eins og sá einstaklingur sem fær það afhent.
Einnig stofnaði hún Miu verðlaunin eru verðlaun til að heiðra þá sem koma að þjónustu langveikra barna á einn eða annan hátt, þar sem heilbrigðisstarfsmenn eru tilnefnd. Miu verðlaunin hafa verið veitt tvisvar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert