Ætlar fyrir MDE og býst við áfellisdómi

Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar í Norð­vest­ur­kjör­dæmi.
Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar í Norð­vest­ur­kjör­dæmi. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar í liðnum kosningum og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, ætlar að kæra ákvörðun Alþingis um að staðfesta niðurstöður síðari talningar í Norðvesturkjördæmi til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE).

Hann segir að málið allt geti verið þingmönnum, sem sjálfir dæmdu um eigin framtíð sem slíkir, víti til varnaðar og bætir við að mannréttindi íslenskra kjósenda séu í spilinu.

„En þetta mál snýst um mannréttindi og réttindi kjósenda og ég held að það sé mjög mikilvægt að leiða þetta mál til lykta frammi fyrir jafnmikilvægum dómstóli og Mannréttindadómstóllinn er, sem við í orði kveðnu segjumst taka mark á,“ segir Guðmdundur í samtali við mbl.is. 

Spurður um þá niðurstöðu væntanlegs dóms MDE, sem hann sjálfur yrði sáttur við, segir Guðmdundur:

„Ef niðurstaða dómsins verður, eins og manni þykir einsýnt annars væri maður ekki að leggja í þetta, einhvers konar áfellisdómur yfir því hvernig við höldum böndum um þessar grunnstoðir lýðræðisins. Ég held að það sé ekki eitthvað sem hægt er slá út af borðinu eða taka af einhverri léttúð.“

Ekki aðeins hægt að svindla heldur auðvelt að svindla

Guðmundur segir að traust til kosninga á Íslandi sé laskað vegna málsins. Hann segir auk þess að ekki hafi aðeins verið hægt að svindla í afstöðnum kosningum, heldur hafi það raunar verið frekar auðvelt. 

„Ég held að það eigi við okkur öll að við berum ekki sama traust til framkvæmdar kosninga eins og við gerðum áður. Sama niður á hvaða niðurstöðu menn tala sig og sama út frá hvaða hagsmunum, sínum eigin eða almannahagsmunum, vita allir að það bíður okkur ærið verk við að endurreisa það. Við þurfum þetta álit til þess að við getum rétt kúrsinn. Það er auðvitað grafalvarlegt að í Norðvesturkjödæmi vitum við ekki, eftir 34 fundi undirbúningskjörbréfanefndar, niðurstöður kosninganna. Það sem við vitum fyrir víst er að það var hægt að svindla í þessum kosningum,“ segir Guðmundur.

Setur út á rannsókn málsins

Guðmundur lýsir ekki bara vonbrigðum sínum yfir niðurstöðu Alþingis í gærkvöldi heldur gerir hann einnig athugasemd við störf undirbúningskjörbréfanefndar, sem hafði það hlutverk að rannsaka málið. Hann segir að nefndin hafi á einhverjum stigum gert mistök.  

„Ég held samt sem áður, svo að það sé sagt, að þau hafi reynt eftir fremsta megni að vanda sig og ég held líka að það sé gott að það hafi verið góð stemming í nefndinni. En þau lögðu upp með það að hafa orðið gagnsæi að leiðarljósi. Þess vegna held ég – sem er mikilvægur punktur og á eftir að hafa afleiðingar – að formaður nefndarinnar og nefndarmenn allir geri sér grein fyrir því að þau gerðu mistök. Þau höfðu til dæmis fundi með kærendum ekki opna, ég held að það hafi verið mistök. Vegna þess að þar er einfaldlega verið að rökstyðja og fara yfir kærur, sem eru opinber plögg. Hvað hefur nefndin þarna að fela á slíkum fundum, ef menn ætla að vinna í anda gagnsæis?“ spyr Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert