„Auðvitað er þetta áfall að þessi veira greinist hjá okkur, bæði fyrir okkur og starfsfólkið,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, í samtali við mbl.is.
Jens segir að vinnan við það að taka fiskinn úr kvínni þar sem grunur liggur um að ISA-veirusýking hafi komið upp verði vonandi kláruð seinni partinn á morgun.
Búið er að virkja sóttvarnaferla sem felast í því að kvíin hefur verið einangruð og stöðin undir sérstöku eftirliti hjá Matvælastofnun.
„Við vinnum þetta allt í samráði og samkvæmt fyrirmælum frá MAST þannig að þetta er fyrsta skrefið og við erum að klára það núna.“
Hann bendir þó á að síðast kom veiran upp í Færeyjum árið 2016/2017 og þar hafi sýkingin verið staðbundinn við tvær kvíar.
Landssamband Veiðifélaga sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem þeir gagnrýna notkun erlendra brunnbáta hérlendis, Jens segir að brunnbáturinn sem fyrirtækið notast við hafi verið í notkun í þrjú ár og hafi farið í gegnum staðlaða sótthreinsun.
„Þegar brunnbátar koma til landsins þá eru þeir sótthreinsaðir og teknir út af yfirvöldum. Ég vísa þessu frekar til MAST og dýralækna að svara þessum fullyrðingum.“