Daglegir fundir og vel fylgst með

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir að viðbragðsaðilar séu vel meðvitaðir um stöðuna í Grímsvötnum. 

Hann segir að fundað sé daglega með sérfræðingum Veðurstofu og horft sé til tveggja mismunandi sviðsmynda: Hlaups eða goss.

„Við fylgjumst mjög náið með þessu og fundum með Veðurstofunni nokkrum sinnum á dag. Og þá erum við að taka stöðuna og það er þetta sig í íshellunni, sem bendir til þess að hlaup sé í uppsiglingu.

Það eru þá tvær sviðsmyndir; annars vegar hlaup sem vísindamenn segja að geti orðið nokkuð stórt en samt alveg innan þeirra marka sem mannvirkin á sandinum eru hönnuð fyrir. Hins vegar eru þessar vangaveltur um að spennulosun geti valdið gosi í kjölfarið í Grímsvötnum og við erum líka að horfa til þess að það gæti gerst,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.

„Það eru allir að koma sér í þann gír að þetta geti gerst,“ bætir hann við.

Blikur á lofti

Í samtali við mbl.is í morgun sagði Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, að menn fylgdust grannt með þróun mála. 

Hann sagði að sú atburðarás sem nú sést, sig íshellunnar yfir Grímsvötnum, geti vissulega verið undanfari goss.

Víðir segir að ef til þess kemur séu viðbragðsaðilar reiðubúnir í samhent átak. Hann segir að almannavarnir vinni náið með vísindamönnum þegar kemur að því að lesa í stöðuna. Meðal annars eru gerð líkön til þess að spá fyrir um öskufall miðað við það veður sem eru hverju sinni. 

En ef það kemur til goss, munum við sjá upplýsingafundi eins og hefð hefur skapast fyrir?

„Það fer allt eftir því hvað það yrði stórt. Ef við sjáum gos eins og árið 2011, þá er það ekkert ólíklegt. Gosið 2004 olli litlum truflunum og algengustu gosin í Grímsvötnum eru í minni kantinum og valda ekki miklum truflunum. En, ef við fáum gos eins og árið 2011 þá finnst mér mjög líklegt við myndum gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert