„Frá okkar bæjardyrum séð er ekki nauðsynlegt að fækka akreinum á Suðurlandsbraut til að koma fyrir hraðvagnakerfi, eða borgarlínu, eins og frumdrög skipulags hafa gert ráð fyrir,“ segir Árni Mathiesen, stjórnarformaður Betri samgangna ohf. Félagið mun hafa yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og fjármögnun.
Fækka á akreinum fyrir bílaumferð úr fjórum í tvær á Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar, samkvæmt frumdragaskýrslu borgarlínunnar. Lagt er til að vinstri beygja verði ekki lengur möguleg nema á hluta gatnamóta. Auk þessa er gert ráð fyrir fækkun bílastæða við Suðurlandsbraut.
Vilhjálmur Árnason alþingismaður, sem hefur setið í umhverfis- og samgöngunefnd, segir að í samgöngusáttmála milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu felist að sveitarfélögin hagi skipulagsmálum þannig að áform ríkisins um uppbyggingu vega gangi eftir. Spár geri ráð fyrir aukningu bílaumferðar og því séu ekki forsendur fyrir því að þrengja að henni. 22