Fá að opna nýjan veg með veglegu framlagi

Börn og bílstjóri hristast lengi í skólabílnum, tvisvar á dag.
Börn og bílstjóri hristast lengi í skólabílnum, tvisvar á dag.

„Nei, við erum ekki búin að gefast upp á stjórnvöldum heldur viljum aðstoða við að leita leiða til að fjármagna verkefnið,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra. Sveitarstjórnin hefur hafið hópfjármögnun á Karolina Fund fyrir lagningu nýs vegar um Vatnsnes.

Vegur númer 711 um Vatnsnes er slæmur og frægt „þvottabretti“. Íbúar og sveitarstjórn hafa lengi barist fyrir því að fá veginn byggðan upp en alltaf hefur strandað á fjármagni. Vegurinn er nú kominn inn á samgönguáætlun en ekki gert ráð fyrir framkvæmdum fyrr en á síðasta tímbili áætlunarinnar, eftir árið 2030. Það telur sveitarstjórn óviðunandi fyrir íbúa og vill að framkvæmdum verði flýtt.

Hristast kvölds og morgna

Ragnheiður segir mikilvægt að hönnun vegarins hefjist sem fyrst þannig að hægt verði að hefja verklegar framkvæmdir með stuttum fyrirvara ef það takist að flýta framkvæmdum. Hópfjármögnunin miðast við að safna 100 milljónum sem dygði til að hefja þá vinnu. Framkvæmdin í heild er þó mun fjárfrekari, kostar um 3,5 milljarða króna.

Margir ferðamenn fara um Vatnsnes enda eru þar vinsælir viðkomustaðir. Það er sveitarstjórninni þó enn ofar í huga að skólabörn þurfa að fara um veginn á hverjum degi. „Er ástand vegarins því miður orðið það slæmt að skólabörn sem ferðast um veginn tvisvar á dag alla sína skólagöngu ná því ýmsa daga að hrista bæði morgun- og hádegismat upp úr sér í ferðinni til lítillar ánægju bæði fyrir börn og aðstandendur enda erum vér Húnvetningar algerlega á móti matarsóun á við þessa,“ segir í kynningu á hópfjármögnuninni.

Berjamór og pönnsur í boði

Áhugafólki er boðið að leggja til mismunandi fjárhæðir og fá umbun fyrir framlag sitt. Það er allt frá þakklæti eða steinvölu með nafni sínu sem lögð verður í veginn til þess að fá að fara í berjamó eða fá kaffi og pönnsur á Sauðadalsá og upp í það að fá leiðsögn um Vatnsnesveginn hjá fyrsta varaþingmanni Framsóknar í kjördæminu eða opna veginn með samgönguráðherra. Til þess að fá að opna veginn þarf að greiða milljón í söfnunina. Leiðsögnin sem Friðrik Már Sigurðsson, varaþingmaður og formaður byggðarráðs, lofar er ódýrari, hún fæst með 150 þúsund króna framlagi.

Fyrstu loforðin bárust í gær en tekið er fram að þau verði ekki innheimt nema takmarkið um 100 milljónir náist. Ef það tekst verður söfnunarféð afhent í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti með skilyrðum um að því verði varið í framkvæmdir við veginn.

Ragnheiður segist hafa fengið góð viðbrögð frá íbúum. Þeim finnist þetta jákvæð nálgun á mikilvægt verkefni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert