„Þessi leiðangur, sem við Arnar Gunnarsson erum að fara í, gengur út á að aðstoða vélhjólaframleiðandann Royal Enfield,“ segir Jóhannes Guðmundsson, sem starfar á breytingaverkstæði og í ferðaþjónustu jeppafyrirtækisins Arctic Trucks á Íslandi, en þeir Arnar Gunnarsson, samstarfsmaður hans og bifvélavirki, eru staddir í Höfðaborg í Suður-Afríku, sem er þó aðeins nánast byrjunarreiturinn í þeim leiðangri, sem bíður þeirra næstu vikurnar, en Jóhannes og Arnar eru við sjötta mann á leið í mörg þúsund kílómetra leiðangur um Suðurskautslandið næstu vikurnar.
Segja má að starfsfólk Arctic Trucks hafi býsna marga fjöruna sopið í leiðöngrum á borð við þennan, en eins og fram kom í viðtali ViðskiptaMoggans við Herjólf Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóra, í nóvember 2017 stóð fyrirtækið að fyrsta leiðangrinum á Suðurskautslandinu árið 1997 og hefur nú verið þar með samfellda starfsemi frá 2008, sem einkum tengist vísindarannsóknum og ferðamennsku.
Sem fyrr segir gengur leiðangur Jóhannesar og Arnars út á aðstoð við fjórmenninga frá Royal Enfield, tvo vélhjólaökumenn og tvo kvikmyndatökumenn. „Þetta eru upphaflega bresk hjól, en eru núna framleidd á Indlandi. Mönnum hjá fyrirtækinu datt í hug að það væri sniðug hugmynd að aka vélhjóli til Suðurpólsins. Þeir höfðu samband við Arctic Trucks og vildu vita hvort þetta væri hægt,“ segir Jóhannes frá, í framhaldinu hafi fulltrúar Royal Enfield í tvígang komið til Íslands til að reyna hjól sín og gera á þeim breytingar með akstur í snjó í huga.
„Við vorum með þá í samtals átta daga uppi á Langjökli til að þjálfa leiðangursmennina og velja rétt dekk fyrir verkefnið,“ segir Jóhannes frá, en nú bíður þeirra leiðangursmanna sex klukkustunda flug frá Höfðaborg yfir til Suðurskautslandsins, sem er 14,2 milljónir ferkílómetra að flatarmáli, til samanburðar eru Bandaríkin og Mexíkó um 12 milljónir ferkílómetra til samans.
„Eftir sex tíma flug lendum við á flugbraut sem Rússar reka sem heitir Novo [rannsóknarstöðin Novolazarevskaya sem Sovétmenn opnuðu þar í janúar 1961], þar eru nokkrir gámar, sem útbúnir eru sem svefnaðstaða og mötuneyti,“ segir Jóhannes og bætir því við að fyrsta verk leiðangursins eftir komuna til Novo verði að koma bifreiðum Arctic Trucks þar á svæðinu í gang, sem nú hafi staðið ónotaðar utandyra á ísköldu heimskautinu í tvö ár.
„Það verður fjögurra til fimm daga vinna, að hreinsa snjó úr vélarrýmum, koma þeim í gang og sinna nauðsynlegum viðgerðum eftir síðasta leiðangur. Svo leggjum við í hann með 2.400 lítra af eldsneyti, fullt af varahlutum og verkfærum og tjöld og mat fyrir mánaðarlangan leiðangur. Við verðum að þvera Suðurskautslandið áður en þeir byrja að hjóla því þetta snýst um að fara frá strönd upp á pól, sem er auðveldast að gera frá Ross-íshellunni [um 500.000 ferkílómetra íshellu], þaðan eru 680 kílómetrar upp á pól, en frá Novo-stöðinni upp á pól eru 2.400 kílómetrar,“ útskýrir Jóhannes hið ískalda jólaverkefni þeirra Arnars árið 2021.
Frá Ross-hellunni kveður hann leiðangurinn njóta þeirrar samgöngubótar að aka eftir beltaförum stórra snjóbíla, er flytja vistir í pólstöð Bandaríkjamanna. „Við verðum sem sagt búnir að flytja hjólin 3.200 kílómetra leið áður en þeir byrja að hjóla,“ bendir Jóhannes á.
Hann kveður ferðalagið frá Novo-stöðinni engan lautartúr. „Við förum upp í 3.500 metra hæð, en loftið er þynnra á suðurhvelinu en víða annars staðar svo í raun er hægt að bæta 500 metrum við hæðina vegna þess. Bílarnir finna fyrir súrefnisskortinum engu síður en við og missa afl í hæðinni og meðan við erum að aðlagast þessu ástandi þurfum við að fara okkur hægt, þegar við tjöldum eða sinnum bílunum gerum við það mjög rólega,“ segir Jóhannes.
Leiðangurinn lækki sig svo aftur niður í 2.800 metra, en í þeirri hæð er sjálfur Suðurpóllinn. Þegar þangað komi verði allt orðið mun auðveldara að sögn Jóhannesar þar sem mannskapurinn verði kominn með hæðaraðlögun. „Ferðalagið upp á pól ætti að taka sjö til tíu daga ef við lendum ekki í miklu brasi á leiðinni með veður eða bílana, við vitum að það verður alltaf eitthvað um bilanir á leiðinni og reynum að vera með alla helstu varahluti, Arctic Trucks hefur verið með leiðangra á suðurskautið síðan 2008 og það er komin mjög góð reynsla á Hilux-bílana og menn vita svona nokkurn veginn hverju við er að búast á leiðinni.“
Jóhannes segir hitastigið geta farið niður í 50 mínusgráður á leiðinni, sem fari þó upp á við er nær dregur pólnum og enn meir þegar Ross-íshellunni er náð. „Þá hefst það sem er tilgangur ferðarinnar og hjólið er tekið niður. Hjólamennirnir frá Royal Enfield skiptast á að keyra, en við erum samt með tvö hjól með okkur, annað til vara ef hitt skyldi bila,“ segir hann frá og kveður þennan legg fararinnar taka fjóra til sex daga og muni myndatökumennirnir þá taka upp efni sem verður uppistaðan í heimildarmynd um ferðina.
Þegar Suðurpólnum verði náð fari hjólið upp á bíl á nýjan leik og ekið verði sem leið liggur niður í Union Glacier-búðirnar á Ellsworth Land þaðan sem flogið verði til Punta Arenas í Chile við lok þessa metnaðarfulla verkefnis og þá komið nýtt ár. Hvernig tilfinning skyldi það vera að verja jólunum nánast eins fjarri fjölskyldunni á Íslandi og komist verður án þess að hreinlega yfirgefa plánetuna?
„Ég er að fara í sjötta skiptið og þetta verður í fimmta skiptið sem ég er yfir jól og áramót þarna úti. Arnar er að fara í fyrsta skiptið og þetta er örugglega pínu erfitt fyrir hann, nýkvæntan manninn, þau giftu sig um daginn uppi á Langjökli og eiga lítinn dreng, sem er nýlega orðinn ársgamall,“ svarar Jóhannes, greinilega ýmsu vanur sjálfur, en finnur til með vinnufélaga sínum.
„Auðvitað er erfitt að vera svona lengi í burtu frá fjölskyldunni, við erum oftast kringum þrjá mánuði í burtu, en núna eru þetta vonandi bara um sjö vikur,“ segir Jóhannes og ekki örgrannt um að mörgum þætti slíkur tími væntanlega alveg nógu langur. Hann segir verkefni Arctic Trucks af ýmsum toga, eitt sinn hafi þeir farið með Massey Ferguson-dráttarvél á Suðurpólinn og til baka vegna auglýsingagerðar og hafi undirbúningur þeirrar farar tekið tvö ár við breytingar á ökutækinu auk þess sem farið hafi verið tvisvar á Langjökul og svo í lokaprufu á Vatnajökul þar sem ekið var allan sólarhringinn til að líkja eftir því sem í vændum var.
„Við höfum farið með vísindamenn í leiðangra, farið inn að miðju Suðurskautslandsins til að útbúa þar flugbraut fyrir vélar, sem lenda þar á skíðum, fylgt gönguskíðahópum í pólferðir auk efnaðra ferðamanna, sem sækjast eftir að komast í erfiða leiðangra,“ nefnir Jóhannes sem dæmi af verkefnum á Suðurskautslandinu síðustu árin. Leiðangursmenn sofi í tjöldum og vélar bifreiðanna séu látnar ganga allan sólarhringinn, jafnvel í sjö vikna leiðangri, en þá var aðeins drepið á vélunum þegar skipta þurfti um olíu. „Ef einhverra hluta vegna er drepið á bíl í lengri tíma í þessu frosti þarf að setja tjaldhimin yfir hann til að hita hann upp, Arctic Trucks notar Langjökul og Vatnajökul sem þjálfunarumhverfi fyrir Suðurpólinn,“ segir Jóhannes af krefjandi verkefnum í fimbulkulda óraveg frá heimaslóðum.
Undir lokin er ekki stætt á öðru en að forvitnast um forláta KR-fána, sem Jóhannes hefur jafnan með sér í pólfarir sínar og flaggar í hinni fjarlægu heimsálfu. Hvernig stendur á þessu?
„Ég er fæddur og uppalinn í Vesturbænum og mig hafði lengi langað að komast á Suðurpólinn. Þegar ég sá að það væri að verða að veruleika var það fyrsta sem mér datt í hug að flagga KR-fánanum á pólnum,“ útskýrir Jóhannes. „Ég hef leitað að fánum á pólnum frá öðrum minni félagsliðum, svo sem Liverpool eða Barcelona, en ekkert fundið,“ segir Jóhannes Guðmundsson frá Arctic Trucks að lokum og dylur ekki ísmeygilega gamansemi lokaorða sinna í samtali við Morgunblaðið á síðustu metrunum fyrir pólför þeirra Arnars Gunnarssonar og föruneytis þeirra.