Jólaljósin verða kveikt í „kyrrþey“

Byrjað var í gær að skreyta jólatréð, Oslóartréð svonefnda, sem …
Byrjað var í gær að skreyta jólatréð, Oslóartréð svonefnda, sem sett hefur verið upp á hvanngrænum Austurvelli í Reykjavík. Ljósin á trénu verða kveikt á sunnudaginn, fyrsta sunnudag í aðventu, en ekki verður um sérstaka athöfn að ræða vegna samkomutakmarkana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hefur verið aflýst formlegri tendrun á Hamborgarjólatrénu við Gömlu höfnina, en búið var að skipuleggja fjölbreytta samkomu á Miðbakka á morgun, laugardag. Þetta er annað árið í röð sem þessi samkoma fellur niður vegna heimsfaraldursins.

Tréð verður sett upp í vikunni, það skreytt jólaljósum og þau síðan tendruð „í kyrrþey“.

Hamborgarjólatréð hefur verið sett upp við höfnina árlega síðan 1965. Þetta hefur verið samstarfsverkefni Faxaflóahafna, Eimskips og þýsk-íslensku vinafélaganna í Hamburg og Köln. Undanfarin ár hefur staðið yfir mikil uppbygging við Austurhöfnina og því hafa fyrirtæki þar gengið til þessa samstarfs. Af því tilefni var stefnt að því að vera með óvenjuveglega dagskrá í ár en af því getur ekki orðið. Var það mat aðstandenda að ekki væri hægt að tryggja viðeigandi öryggi meðan á viðburðinum stæði og fjöldinn sem myndi sækja dagskrá í Listasafni Reykjavíkur yrði umfram það sem samkomutakmarkanir leyfa. Því hefur verið ákveðið að aflýsa viðburðinum þetta árið.

Faxaflóahafnir ásamt fyrirtækjum í Austurhöfn stefna að því að halda þennan jólaviðburð árið 2022 með pompi og prakt.

Faxaflóahafnir munu hins vegar verða með viðburði á Grandanum þrjár helgar í desember. Verið er að leggja lokahönd á dagskrána.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert