Vegfarandinn sem lést í gærmorgun í umferðarslysi nærri gatnamótum Skeiðarvogs og Gnoðarvogs var kona á sjötugsaldri af erlendum uppruna. Þetta staðfestir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan vinnur nú að því að setja sig í samband við aðstandendur hennar erlendis.
Greint var frá því í gær að banaslys hefði orðið þegar strætó ók á gangandi vegfaranda. Bæði lögregla og sjúkrabíll voru kölluð á vettvang og var konan flutt á sjúkrahús.
Lögregla veitir ekki frekari upplýsingar um slysið að svo stöddu, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.