Samningafólk á vinnumarkaði virðist ætla að koma vel undirbúið fyrir næstu viðræður um endurnýjun kjarasamninga ef marka má mikla aðsókn á námsstefnur sem ríkissáttasemjari stendur fyrir um samningagerð. „Viðtökurnar eru frábærar og staðfesta niðurstöður úr könnun sem við gerðum meðal samninganefndarfólks um mikinn vilja til að taka þátt í fræðslustarfi í undirbúningi næstu samningalotu,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Hver námsstefna, sem fyrirhugað er að halda allt til 9. nóvember á næsta ári, stendur yfir í þrjá daga og er markmiðið að efla færni samninganefndarfólks, auka fagmennsku við kjarasamningaborðið og stuðla að órofa samningaferli. Sett var á fót fræðsluráð ríkissáttasemjara með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins og hafa verið skipulagðar m.a. fimm þriggja daga námsstefnur um samningagerð um allt land.
Áhuginn er greinilega mikill því 65 fulltrúar skráðu sig á fyrstu námsstefnuna. „Aðsóknin eru þannig að það eru öll sæti tekin á fyrstu námsstefnunni á Húsavík, hartnær fullt á síðustu námsstefnunni í Borgarfirði og mikil aðsókn að hinum námsstefnunum á Ísafirði, Egilsstöðum og í Stykkishólmi,“ segir Aðalsteinn. „Ég geri ráð fyrir að það verði fullt hús fólks í samninganefndum bæði frá verkalýðshreyfingunni og launagreiðendum á öllum námsstefnunum,“ bætir hann við.
Fram kom í könnun ríkissáttasemjara meðal þeirra sem sitja í samninganefndum að um 80% sögðust vilja bæta við þekkingu og færni sína í samningagerð fyrir næstu viðræðulotu. Um 40% þeirra sem tóku þátt í seinustu samningalotu sem hófst árið 2019 höfðu ekki áður verið í samninganefnd.
Að sögn Aðalsteins hefur faraldur kórónuveirunnar haft áhrif á fyrirætlanir um námsstefnurnar og þurfti af þeim sökum að fresta fyrstu námsstefnunni fram til mánaðamóta febrúar/mars á næsta ári „en við vonum að þá verði örvunarskammtur í æðum og betri staða í viðureigninni við faraldurinn,“ segir hann.