Ný ríkisstjórn standi frammi fyrir klassískum spurningum

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að ný ríkisstjórn sem kynnt verður á næstu dögum þurfi að taka á efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins og standi stjórnin frammi fyrir klassískum spurningum stjórnmálanna.

Á að verja innviði samfélagsins og beita jöfnunartækjum til að draga úr ójöfnuði í kjölfar kreppu? Eða á að nýta tækifærið með vísan til skulda ríkissjóðs, afhenda fjármálaöflum sameiginlegar eigur og auka þannig ójöfnuð til að fáir útvaldir geti makað krókinn,“ skrifar Drífa í vikulegum pistli sínum.

„Fjármagnseigendur eru með fullar hendur fjár og um allan heim bíða þeir eftir að komast yfir samfélagslegar eigur því þar er helsta gróðavonin um þessar mundir. Að reka hluta af grunninnviðum fyrir ríkið „tryggir greiðsluflæði“ eins og það heitir á fjármálatungumáli. Á venjulegu máli heitir það að vera með hendurnar í vasa skattgreiðenda, eða vera hreinlega á ríkisspenanum.“

Ríkið hlaupi undir bagga ef í harðbakkann slær

Drífa bendir þá á að innviðirnir verði að vera til staðar, þeir megi ekki klikka og að því sé ljóst að ríkið hlaupi undir bagga ef í harðbakkann slær. Hún segir ríkið hafa minnkað skuldir sínar með því að fá einkaaðila til verka og bindast þeim svo notenda- eða leigusamningsböndum um ókomna tíð, sem alla jafna eru dýrari fyrir skattgreiðendur.

„Þetta er ekki samsæriskenning heldur raunveruleg staða. Fjárfestingasjóðir undirbúa nú innviðasókn í trausti þess að ríkisstjórnin vinni með þeim. Slíkt er ekki almenningi í hag, að selja eða gefa frá sér sameiginlegar eigur og greiða svo fyrir þær leigu eða þjónustugjöld í fyrirsjáanlegri framtíð.“

Það er skaðleg hugmyndafræði sem meira að segja íhaldssömustu alþjóðastofnanir vara við í kjölfar niðursveiflunnar og ýmis lönd reyna að vinda ofan af slíkum afdrifaríkum mistökum fortíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert