Reykjavíkurborg sýknuð af kröfu Sérverks

Sérverk krafðist í bréfi til Reykjavíkurborgar í september 2019 að …
Sérverk krafðist í bréfi til Reykjavíkurborgar í september 2019 að innviðagjaldið yrði endurgreitt en borgin hafnaði því alfarið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur sýknaði í dag Reykjavíkurborg af kröfu Sérverks ehf. um endurgreiðslu á rúmum 120 milljónum króna auk dráttarvaxta sem fyrirtækið hafði greitt vegna innviðagjalda árið 2018.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur hefur því verið staðfestur en málskostnaður var lækkaður í Landsrétti úr 1,9 milljónum króna í eina milljón sem Sérverk þarf að greiða Reykjavíkurborg í málskostnað. 

Sérverk taldi álagningu innviðagjaldsins ólögmæta og að tekjuöflun sveitarfélaga yrði að byggjast á heimildum í lögum.

Kunnugt um samkomulag í kaupsamningnum

Í dómnum segir að Sérverk keypti lóðina Kuggavog 5 af Vogabyggð ehf. árið 2017. Í kaupsamningnum segir meðal annars að kaupanda, Sérverk, sé kunnugt um samkomulag milli Vogabyggðar, Hamla og Reykjavíkur frá 2016 um skipulag, uppbyggingu og þróun á svæði í Vogabyggð Reykjavík.

Með kaupsamningnum yfirtók Sérverk öll réttindi og skyldur samkvæmt veðskuldabréfi sem Vogabyggð ehf. gaf út árið 2017 áður en kaupin áttu sér stað.

Uppgreiðsluverð þess í október 2018 var um 120 milljónir króna. Sérverk krafðist í bréfi til Reykjavíkurborgar í september 2019 að innviðagjaldið yrði endurgreitt en borgin hafnaði því alfarið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert