Vísindamenn eru komnir í stellingar vegna ástandsins í Grímsvötnum, virkustu eldstöð landsins. Þar hefur íshellan sigið um tugi sentímetra á tveimur sólarhringum, atburður sem sögulega hefur verið undanfari goss.
Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þó að menn taki ekki handahlaup yfir stöðu mála enn, þar sem engin gosórói hefur mælst og ekkert orðið vart við gasuppstreymi á og við jökulinn.
„Þetta er svona, hvað á maður að segja, 50/50,“ segir Bjarki við mbl.is en slær þó varnagla strax í kjölfarið:
„Það eru engin merki um óróa, það eru engin merki um skjálftavirkni eða neitt svona.“
Bjarki segir að sérfræðingar hafi verið að reyna að lesa í gasmæla við Grímsvötn til að glöggva sig betur á stöðu mála. Það hefur hins vegar gengið illa að undanförnu vegna mikils hvassviðris, sem feykir gasinu í allar áttir svo engar mælingar nást.
„Það mælist ekkert gas uppi við Grímsvötn. Það mælist ekkert gas við Skeiðarárjökul. Við erum í raun bara að bíða eftir að vatnið komi undan jöklinum, það eru mælitæki þar sem geta mælt hvort það sé eitthvað gas. En á sama tíma hefur verið frekar hvasst veður þarna bæði í nótt og í dag og núna mælast bara 20 metrar á sekúndu, þannig ef það er að koma eitthvað gas þarna þá getur það dreifst með vindinum og mælist ekkert í tækjunum,“ segir Bjarki.
Núna fylgjast því sérfræðingar bara grannt með og bíða átekta. Um leið og vatn kemur undan Skeiðarárjökli vegna sigs íshellunnar, þá gefst jafnvel tækifæri til þess að mæla gas, en einnig er hægt að mæla rafleiðni vatnsins.
Rétt rúm tíu ár eru síðan gaus síðast í Grímsvötnum, eldstöð sem gýs að meðaltali á tíu ára fresti. Gosið árið 2011 var nokkuð öflugt í sögulegum samanburði og gerði bændum á Suðurlandi ansi erfitt fyrir, aðeins ári eftir að Eyjafjallajökull gaus með alvarlegum afleiðingum fyrir svæðið – a.m.k. þar til erlendir ferðamenn tóku að streyma til landsins.
Eins og fyrr segir er sig íshellunnar yfir Grímsvötnum ákveðin vísbending um að gos sé í vændum en Bjarki segir þó að einnig geti verið að ekki komi til goss, ekki að svo stöddu það er.
Þannig það getur alveg gerst að það gjósi síðan bara ekkert?
„Það getur alveg verið. Ég held að það hafi verið 2010 eða 2011 sem varð hlaup en það byrjaði ekki að gjósa fyrr en um mitt ár 2011. Þannig það getur alveg gerst, en eins og árið 2004 þá varð hlaup og byrjaði ekkert að gjósa fyrr en hlaupið var búið, minnir mig.“
Þangað til eitthvað stórfenglegt gerist verða vísindamenn því bara að bíða og sjá.
„Við fylgjumst alltaf með öllu allan sólarhringinn og erum öllu viðbúin, en maður kannski skoðar Grímsvötn aðeins meira núna en venjulega,“ segir Bjarki.