Segir þýska verslun græða á sinni hönnun

Hugrún Ívarsdóttir.
Hugrún Ívarsdóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég er búin að vera í þessu í 20 ár og hef lagt ýmislegt á mig til að koma þessari vöru á markað. Þess vegna er mér misboðið,“ segir Hugrún Ívarsdóttir, hönnuður á Akureyri.

Hugrún rekur fyrirtækið íslensk.is og sérhæfir sig í sölu á íslenskri og skandinavískri hönnun. Hún hefur meðal annars hannað og selt vörur sem skarta myndum af íslenska hestinum, svo sem teppi, púða, viskastykki og beisli. Þær hafa notið vinsælda víða um heim og ekki síst í Þýskalandi en mikill áhugi er á íslenska hestinum þar í landi sem kunnugt er.

Fyrir skemmstu uppgötvaði Hugrún að eigandi netverslunarinnar Isi4fun.de í Þýskalandi, sem var stærsti viðskiptavinur hennar þar, er nú farinn að selja sams konar vörur undir eigin merkjum.

„Þessi kona, Isabella Fricke, hafði verið í viðskiptum við mig í nokkur ár og kynnst því hvað gengur vel og hvað ekki. Eitt af því var teppi sem notið hefur mikilla vinsælda og ég frétti fyrst af þessu þegar hún bað framleiðanda minn í Finnlandi að framleiða fyrir sig sams konar teppi. Hann neitaði því vitaskuld,“ segir hönnuðurinn.

Ekki sanngjarnir viðskiptahættir

Hún kveðst hafa gert athugasemdir við að farið sé svo nálægt hennar hönnun enda greinilegt hvaðan hugmyndin kemur en sáralitlu þarf að breyta til þess að það teljist ekki ólöglegt.

„Þetta er ekki nógu líkt til að teljast þjófnaður. Fólk hefur samt verið að rugla þessum vörum saman og nokkrir aðilar hafa haft samband í kjölfarið og bent á líkindin. Það er oft mikil vinna á bak við hönnun og mér finnst sorglegt að einhver annar geti kippt henni til sín með þessum hætti. Þetta eru ekki sanngjarnir né eðlilegir viðskiptahættir, svona á ekki að koma fram.“

Hugrún leitaði til Íslandsstofu, Myndstefs og Handverks og hönnunar vegna þessa til að kanna hvaða möguleikar væru í stöðunni. Hún segir að viðbrögð allra sem hún hafi talað við hafi verið á einn veg, það gangi fram af fólki hversu bíræfinn umræddur eigandi þýsku netverslunarinnar sé. Hugrún kveðst aukinheldur vita til þess að annað íslenskt fyrirtæki sé að kanna réttarstöðu sína gagnvart viðkomandi en það mál sé á viðkvæmu stigi og eigendur fyrirtækisins vilji ekki ræða það opinberlega á þessu stigi.

Í byrjun þessa árs leitaði Hugrún til Myndstefs sem skrifaði öllum aðilum málsins bréf og bað þá um að skýra sína stöðu. Einn þeirra er fyrirtækið Varma sem hefur framleitt teppi fyrir þýsku netverslunina.

„Þaðan fæ ég þær upplýsingar að þetta hafi nú bara verið örfá teppi en eitthvað endast þau vel. Þau eru alltaf í sölu og svo bætast fleiri vörur við. Núna er komið á markaðinn lundateppi sem er óheppilega líkt mínu teppi og ég geri ráð fyrir að það sé einnig framleitt af Varma. Ég er undrandi að Varma skuli leggja nafn sitt við þetta.

Ég hef einnig fengið það staðfest að þýskt fyrirtæki sé að undirbúa málsókn gegn isi4fun þar er um að ræða fjársterka aðila og þeir ætla með máið alla leið.“

Flókin og erfið mál

Aðalheiður Dögg Finnsdóttir Helland, framkvæmdastjóri Myndstefs, myndhöfundasjóðs Íslands, staðfestir við Morgunblaðið að mál Hugrúnar hafi komið inn á borð sjóðsins. Myndstef hafi sent staðlað upplýsingabréf sem hlutaðeigendi gefist svo kostur á að svara. Hún segir að engin lausn hafi fengist í málið meðan það var á forræði Myndstefs. „Almennt séð geta svona mál verið flókin og erfið. Þá er sérstaklega erfitt að fara í sérstakar lögfræðiaðgerðir á milli landa,“ segir Aðalheiður.

Danir stálu hönnuninni

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hugrún gerir athugasemdir við að aðrir nýti sér hönnun hennar. Fyrir tveimur árum reyndi hún að sækja rétt sinn gegn dönsku vefversluninni Tackshop.dk sem hún hafði verið í viðskiptum við. Segir hún að forsvarsmenn dönsku verslunarinnar hafi notað teikninguna í þeirra vöruframleiðslu. Þeir hafi svo endað með því að bíta hattinn af skömminni og selja teikninguna sem lógó til íslensks fyrirtækis. „Í því tilviki var um hreinan þjófnað að ræða. Það var gríðarlega kostnaðarsamt að reka málið og á endanum ákvað ég að stefna þeim ekki þó að lögfræðingar mínir væru þess fullvissir að ég myndi vinna fullnaðarsigur. Lögfræðingarnir sögðu jafnframt að ef svo færi myndi ég fá til baka þriðjung af útlögðum kostnaði. Ég mat það svo að betra væri að láta kyrrt liggja. Það er erfitt fyrir litla aðila að taka slíka slagi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert