Tæplega helmingur gifti sig hjá Þjóðkirkjunni

252 einstaklingar giftu sig hjá Þjóðkirkjunni í ágúst.
252 einstaklingar giftu sig hjá Þjóðkirkjunni í ágúst. mbl.is/Helgi Bjarnason

Innan við helmingur þeirra er stofnuðu til hjúskapar í ágústmánuði gifti sig hjá Þjóðkirkjunni, eða alls 252 einstaklingar af 530, sem gera 47,5% af heildarfjölda. 

Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands.

Þá stofnuðu 144 til hjúskapar hjá sýslumanni og 76 í öðru trú- eða lífsskoðunarfélagi og að lokum voru 58 íslenskir ríkisborgarar sem gengu í hjúskap á erlendri grundu.

Lítil breyting frá fyrri árum

Að því er fram kemur í samantekt Þjóðskrár yfir hjúskap og skilnaði á árunum 1990 til 2021 virðast júní, júlí og ágúst vera vinsælustu mánuðirnir til að ganga í það heilaga.

Í ár voru alls 530 sem stofnuðu til hjúskapar í ágúst og hefur fjöldinn verið nokkuð svipaður um þetta leyti síðustu tvö ár. Til samanburðar voru 532 sem gengu til hjúskapar í ágúst í fyrra og 528 í ágúst 2019.

84 skilnaðir

Þá var einnig nokkuð um skilnaði í ágúst en af þeim 84 einstaklingum skildu, og skráðir eru í þjóðskrá, gengu 82 frá lögskilnaði hjá sýslumanni og 2 fyrir dómi.

Athuga skal að tölurnar er koma hér fram byggja á tilkynningum um lögskilnað og stofnun hjúskapar til Þjóðskrár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert